Tímarit Máls og menningar - 01.10.2016, Blaðsíða 120
120 TMM 2016 · 3
Einar Már Jónsson
Heiðloftið bláa
Kannske muna einhverjir eftir and-
rúmsloftinu fyrstu mánuðina eftir
Hrunið. Þá fannst mönnum blasa við
augum að frjálshyggjan hefði beðið end-
anlegt skipbrot og Hayek reynst falsspá-
maður, dómi sögunnar yrði ekki áfrýj-
að. Um leið fóru menn að muna eftir
Keynes sem hafði verið ónefnanlegur
áratugum saman, hann hafði orðið fyrir
því sem Rómverjar kölluðu damnatio
memoriae, og kenningar hans komust
aftur á dagskrá. Frjálshyggjumenn voru
hins vegar horfnir af sjónarsviðinu, ef
einhver þeirra reyndi að þráast við og
útskýra það sem gerst hafði eftir sínum
eigin kokkabókum hljómaði það hjá-
rænulega, því töluðu þeir fyrir daufum
eyrum.
En þeir voru þó engan veginn búnir
að gefast upp, þeir höfðu aðeins skriðið
niður í jarðholur og hella, og þar kúrðu
þeir í myrkrinu um hríð og reyndu að fá
menn til að gleyma sér. Einstaka menn
tóku að vísu til við að endurskrifa sög-
una, en þeir voru færri sem ljáðu því
eyru, kannske ekki nema eitthvað um
þrettán prósent. En svo leið tíminn,
endurminningarnar um Hrunið tóku að
dofna, viðreisnin fór að nokkru leyti í
handaskolum, og þá gerðist það að
frjálshyggjumenn byrjuðu að skríða
aftur út úr holunum; þeir höfðu ekkert
lært og engu gleymt, og hvíldin í myrkr-
inu hafði gert þá enn illvígari. Nú flögg-
uðu þeir ekki aðeins skrattanum Hayek
heldur og líka ömmu skrattans, frú Ayn
Rand. Keynes var enn nefndur en nafn
hans var skammaryrði, slett á menn til
að drótta því að þeim að þeir væru ekki
annað en álfar út úr hól. Áður en nokk-
ur vissi af voru frjálshyggjumenn aftur
búnir að hrifsa til sín stjórnvölinn um
víða veröld og teknir til við einkavæð-
ingar, afreglanir og þær sjálftökur sem
slíkum íþróttum fylgja. Ekkert virtist
lengur geta orðið þeim fjötur um fót,
þeir gengu rammefldir til verka svo
bergmálaði á Tortola.
Því er mönnum nú hollast að vera við
öllu búnir, láta sér ekki koma í opna
skjöldu það sem yfir kann að dynja, þótt
litlar líkur séu á því að nokkur fái nokk-
uð við því gert, og kannske er sumum
stóísk hugarhægð í því að vita fyrirfram
í hvers konar sósu þeir verði étnir, eins
og Frakkar segja. Nauðsynlegt er að
skoða framtíðina í ljósi fortíðarinnar, og
leggja eyru við spásögnum ófreskra
manna. Svo mælir Jón Krukkur:
Ég sé iðandi hillingar við sjóndeilar-
hring sem nálgast ört. Skyndilega munu
menn vakna upp við að búið er að
einkavæða Jörðina og allt sem á henni er
og henni fylgir, ekki síst útsýnið á fögr-
um stöðum; Vatnið bæði heitt og kalt,
og um leið hafið allt, svo og ár, vötn og
læki; og loks Eldinn, sem sé orkuna. En
þá rennur upp fyrir athafnamönnum, að
þarna eru einungis þrjár höfuðskepnur
komnar í gagnið, en höfuðskepnurnar
eru fjórar eins og allir vita; það vantar
sem sé sjálft Loftið svo allt sé fullkomn-
að. Og ekkert má verða útundan, því ef
sameignarsinnum tekst að halda í eitt-
hvað, hversu lítið sem það er, munu þeir
óhjákvæmilega færa sig upp á skaftið og
sölsa undir sig meira og meira, það er
hin vísa leið til ánauðar. Postularnir
verða strax gerðir út af örkinni, því
H u g v e k j a