Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 52
52 Vilhjálmur Árnason
Þegar við tökumst á við þessi úrlausnarefni reynir á hæfni okkar til að ígrunda
siðadómana með sérstakri tilvísun til aðstæðnanna og komast að niðurstöðu sem
samrýmist siðferðiskennd okkar sem upplýst er af þessum siðadómum.
Þessir tilteknu siðadómar eru kjarnaþættir siðferðisins og varða grundvallar-
hagsmuni okkar. Þetta sést meðal annars af því hvernig þeir tengjast því sem við
kennum börnum okkar í siðferðisefnum: ekki meiða (sem ógnar velferð), ekki
gera upp á milli (sem er ranglátt) og ekki segja ósatt (sem grefur undan sjálfræði).
Þeir koma þannig á undan allri siðfræði, þótt allar marktækar kenningar geri þá
að skipulegu viðfangsefni. Siðadómar af þessu tagi eiga upptök sín í almennu
siðferði og mótast af sjálfum samskiptaveruleika manna.30 Þessir siðadómar hafa
þó einungis gildi prima facie, „við fyrstu sýn“, og vandinn í siðferðisefnum er m.a.
að sjá hvenær þeir eiga ekki við og rökstyðja undantekningar frá þeim án þess að
missa sjónar á almennu gildi þeirra.31 Í því skyni er hvað mikilvægast að grann-
skoða aðstæðurnar því að raunverulegt gildi siðadómanna er alltaf aðstæðubund-
ið, háð vægi þeirra miðað við aðra almenna siðadóma við tilteknar aðstæður.
Hér er engin fyrirframgefin allsherjarregla sem hægt er að skírskota til heldur
er niðurstaðan háð mati velviljaðra og sanngjarnra manna sem eru reiðubúnir að
rökræða mat sitt við aðra.
Þessi aðferð kemur því hvorki „neðan frá“ aðstæðunum, bundin þeim viðteknu
viðmiðum sem þar hafa mótast, né „ofan frá“ háfleygum kenningum sem kunna
að missa sjónar á sérstöðu aðstæðnanna. Hún hefst handa á forsendum hvers-
dagslegar siðferðiskenndar sem mótast í deiglu reynslunnar, svo sem af því að
takast á við úrlausnarefni á sviði hagnýttrar siðfræði. Í þeirri viðleitni getum við
þurft að snyrta til, aðlaga og grisja viðtekna siðadóma í því skyni að varðveita
almennustu siðferðisskuldbindingar okkar. Þetta síkvika ferli hefur verið kall-
að viðleitni til að öðlast „ígrundað jafnvægi“ í siðadómum okkar.32 Almennustu
siðferðisskuldbindingum okkar má til dæmis lýsa út frá viðleitninni til að vera
heiðarleg, sanngjörn og láta gott af okkur leiða. Á sviði heilbrigðis- og lífsiðfræði
hefur frumskuldbindingunni33 oft verið lýst þannig að stuðla beri að auknu heil-
brigði og að virða sjúklinga sem manneskjur.34 Fræðileg greining lífsiðfræðinnar,
sem byggir á ígrunduðum siðadómum, leitast við að virða þessa frumskuldbind-
ingu og grundvallarverðmæti almenns siðferðis.
Þekktustu talsmenn þessarar aðferðar, Tom Beauchamp og James Childress,
leggja til fjögur siðalögmál sem gegni því hlutverki að vernda helstu verðmæti
almenns siðferðis og frumskuldbindingu fagstétta.35 Þetta eru sjálfræðislögmálið
(sem virðir sjálfsákvörðunarhæfni fullveðja einstaklinga), skaðleysislögmálið (um
að valda sjúklingum ekki skaða), velgjörðarlögmálið (um að láta gott af sér leiða
og vega ávinning og áhættu) og réttlætislögmálið (sem kveður á um sanngjarna
30 Beauchamp og Childress (2001) tala um „common-morality“ sem siðfræðin útlistar (sjá t.d. 2–4
og 401–405).
31 Þetta er inntakið í kenningu Ross 1930.
32 Beauchamp og Childress 2001: 398. Hugtakið er fengið frá Rawls: 1971.
33 Sbr. Sigurð Kristinsson 1991: 22–24.
34 Sbr. Vilhjálm Árnason 2003: 22–25.
35 Beauchamp og Childress 2001: 12.
Hugur 2014-5.indd 52 19/01/2015 15:09:32