Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 203
Leið mín til fyrirbærafræðinnar 203
ekki hægt að sýna fram á að Husserl hafi gert svo gróf mistök í verki sínu, hver
er þá hin fyrirbærafræðilega lýsing á vitundarathöfnum? Í hverju felst það sem
er sérstakt við fyrirbærafræðina ef hún er hvorki rökfræði né sálfræði? Kemur
hér fram ný og áður óþekkt grein heimspekinnar, jafnvel einstök grein sinnar
tegundar?
Ég gat ekki ráðið fram úr þessum spurningum. Ég vissi ekki hvað ég ætti að
gera eða hvert ég ætti að halda. Það var varla að ég gæti mótað spurningarnar svo
skýrt sem þær eru settar fram hér.
Árið 1913 bar svar í skauti sér. Forlagið Max Niemeyer byrjaði að gefa út Ár-
bók um heimspeki og fyrirbærafræðilegar rannsóknir (Jahrbuch für Philosophie und
phänomenologische Forschung) sem Husserl ritstýrði. Fyrsta heftið hefst á umfjöll-
un Husserls undir titli sem gefur til kynna aðal og umfang fyrirbærafræðinnar:
Hugmyndir að hreinni fyrirbærafræði og fyrirbærafræðilegri heimspeki (Ideen zu einer
reinen Phänomenologie und phänomenologischen Philosophie).
„Hrein fyrirbærafræði“ er „grundvallarvísindi“ þeirrar heimspeki sem einkenn-
ist af þessari sömu fyrirbærafræði. „Hrein“ þýðir: „forskilvitleg fyrirbærafræði“.
Hins vegar er „sjálfsveruháttur“ sjálfsverunnar sem þekkir, athafnar sig og metur
hlutina, settur í „forskilvitlegt“ samhengi. Hugtökin „sjálfsveruháttur“ og „for-
skilvitlegur“ sýna bæði að „fyrirbærafræðin“ fylgdi heimspekihefð nýaldar með-
vitað og greinilega, en þó þannig að „forskilvitlegur sjálfsveruháttur“ tók á sig öllu
upprunalegri og almennari mynd í gegnum fyrirbærafræðina. Fyrirbærafræðin
gerði „upplifanir vitundarinnar“ að efniviði sínum, en nú með kerfisbundnari og
traustari rannsókn á formgerðum upplifunarathafna með því að rannsaka við-
föngin sem maður upplifir í þessum athöfnum með tilliti til hlutlægni þeirra.
Nú var líka hægt að finna Rökfræðilegum rannsóknum, sem höfðu verið svo að
segja heimspekilega hlutlausar, kerfisbundinn stað í hinu almenna verkefni fyrir-
bærafræðilegrar heimspeki. Þær voru gefnar út sama ár, 1913, í seinni útgáfunni
af sama útgefanda. Í millitíðinni höfðu flestar rannsóknanna gengið í gegnum
„gagngerar breytingar“. Sjötta rannsóknin, „sú mikilvægasta með tilliti til fyrir-
bærafræði“ (samkvæmt formálanum að seinni útgáfunni) var aftur á móti ekki
birt. En ritgerðin „Heimspeki sem ströng vísindi“ (1910–11), sem var framlag
Husserls til fyrsta heftis hins nýstofnaða tímarits Logos, fékk nú fyrst nægar
undirstöður fyrir stefnumótandi kennisetningar sínar í gegnum Hugmyndir að
hreinni fyrirbærafræði.
Sama ár, 1913, birtist hjá forlaginu Max Niemeyer mikilvæg rannsókn Max
Scheler, Drög að fyrirbærafræði samúðartilfinningar og um ást og hatur. Með við-
auka um ástæðu þess að gera ráð fyrir tilvist framandi sjálfs (Zur Phänomenologie der
Sympathiegefühle und von Liebe und Haß. Mit einem Anhang über den Grund zur
Annahme der Existenz des fremden Ich, 1913).
Með þessum útgáfum komst Niemeyer í fremstu röð forlaga á sviði heim-
spekilegra verka. Á þeim tíma heyrði maður oft þá frekar augljósu fullyrðingu
að með „fyrirbærafræði“ hafi komið fram ný stefna innan evrópskrar heimspeki.
Hver hefði viljað draga lögmæti þessarar fullyrðingar í efa?
Svona sögulegur misreikningur lýsti þó ekki því sem gerst hafði með tilkomu
Hugur 2014-5.indd 203 19/01/2015 15:09:40