Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 68
68 Svavar Hrafn Svavarsson
dyggðasiðfræði. Stóuspekin hefur einnig höfðað til fólks síðustu árin. En stóísk
siðfræði hefur ekki gert það á sama hátt og siðfræðikenningar nútímans, heldur
frekar eins og sjálfshjálparkenningar og hversdagsheimspeki, kannski sem leiðar-
vísir um hversdagslífið. Hugmynd stóumanna (og annarra hellenískra heimspek-
inga) um lækningu sjálfsins heillar þá sem vilja lifa sjálfstæðu og hamingjuríku
lífi. Vissulega mætti kenna þessa nálgun við hagnýtta siðfræði, en þó er hún af
öðrum toga en sú sem almennt er svo kölluð að svo miklu leyti sem hún lítur fyrst
og fremst til einstaklingsins.19 Hellenísk heimspeki og ekki síst stóuspekin hafði
beinlínis að geyma misjafnlega einfalda leiðarvísa um daglegt líf, ráð og heilræði.
Í þeim skilningi var vissulega til hagnýtt siðfræði innan fornaldarheimspeki.20
Mér finnst nokkuð ljóst að sátt fornmanna um skilning á frumforsendum,
markmiðum og aðferðum siðfræðinnar skipti máli. Fjölhyggja nútímans leyfir
ekki slíka samstöðu. En þótt hún leyfi ekki samstöðu um markmið, leyfir hún
samstöðu um skilyrði fyrir leit að góðu lífi. Enn má þó spyrja hvort ekki hafi verið
til staðar sama gjáin á milli lífs og siðfræði – sú sem verður til vegna þess hve
almennar siðfræðikenningar eru – sem hefði þá gert fornmönnum jafnilla kleift
að lifa heimspeki sína og okkur.
Fornaldarheimspekingar töldu (flestir – við þurfum alltaf að undanskilja nokkra,
ekki síst efahyggjumenn) að farsældin krefðist þessara sérstöku innri gæða sem
við nefnum dyggðir, hvort heldur þær væru nægjanlegt skilyrði farsældar eða að-
eins nauðsynlegt. Dyggðirnar eru hins vegar alltaf undirorpnar skynsemi, jafnvel
þannig að í meðförum sumra heimspekinga eru þær ekkert annað en þekking-
in sjálf, en alltaf eru þær eins konar tilbrigði við þekkingu. Og hér komum við
að viðhorfi fornmanna til stöðu skynsemi og þekkingar sem er gerólíkt okkar:
Heimspekin – og þá siðfræðin, vegna þess að hún ræður dyggð og farsæld – hefur
bein áhrif á breytni mannsins sem birtingarform skynseminnar; hún hvetur og
kveikir í manninum í leit hans að hinu besta lífi. Þetta gerir heimspekin ekki sem
einhvers konar hjálparhella, heldur sem yfirvald, sem heimspekingurinn fylgir
að öllu leyti. Núna getur heimspeki vissulega veitt okkur aðstoð við ákvörðun um
athafnir og hvernig skuli haga lífinu, en ákvörðunin sjálf getur sem hægast oltið
á annars konar hvötum, áhrifum og ástæðum. Heimspeki er ekki lengur í sama
skilningi yfirvald heimspekinganna. En hvaða skilningi var þá heimspeki skilin?
Hvað þýðir að hún sé birtingarform skynseminnar sem ráði lífi heimspekingsins?
Eitt af því sem þetta þýðir er að heimspekin er skilin sem lífsmáti.
Fræðimenn hafa gert grein fyrir þessum sérstaka skilningi fornaldarheimspek-
19 Hér mætti nefna ýmis rit, svo sem Sherman 2005 og Irvine 2008, en einnig vefsíður eins og Stoi-
cism Today: Ancient Stoic Philosophy for Modern Living (http://blogs.exeter.ac.uk/stoicismtoday/).
20 Hluti stóískrar siðfræði hafði að geyma praktískar ráðleggingar, forskriftir, handa venjulegu fólki
sem vildi taka framförum í lífinu, verða dyggðugra. Ýmsir stóumenn sömdu rit um rétta breytni
eða það sem síðar kölluðust skyldur, þ.e. val þeirra hluta sem eru í samræmi við náttúruna (um
siðfræðilega náttúruhyggju stóumanna, sjá Svavar Hrafn Svavarsson 2011). Mörg rit þeirra eru
þerapísk, leitast við að lækna sálarmein, eins og Um reiðina eftir Seneca. Epiktetos útskýrir:
„Heimspekin lofar ekki að fá manninum eitthvað sem liggur ytra. Ef hún gerði það, lofaði hún
því sem er handan viðfangsefnis hennar. Því eins og timbrið er efniviður trésmiðsins og brons
höggmyndasmiðsins, þannig er líf hvers manns efniviður lífslistarinnar“ (Samræður 1.15). Þessi
lífslist krefst rannsókna en einnig æfinga, þ. á m. andlegra æfinga.
Hugur 2014-5.indd 68 19/01/2015 15:09:33