Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 209
Á flótta undan tímanum … með Pepsi 209
sem hjátrú og hindurvitni, goðsagnir og trúarbrögð spretta – sé sá sálarþáttur sem
náttúran notfæri sér til að byrgja manninum sýn á ýmsar ógnvænlegar staðreyndir
um mannlega tilveru sem skynsemin er fær um að afhjúpa með rökhugsun sinni
og skarpskyggni.2 En hverjar eru þessar staðreyndir sem ógna tilvist mannsins?
Bergson telur upp þrjú atriði.
Fyrst nefnir hann þá hugmynd sem við höfum um sjálf okkur sem einstaklinga.
Barnið, sem í upphafi gerir ekki greinarmun á sjálfu sér og móður sinni, vex úr
grasi og ef hugarstarfsemi þess þróast eðlilega verður það að fullorðnum ein-
staklingi sem aðgreinir sig frá öðrum einstaklingum. Hættan við þessa þróun er
sú að einstaklingurinn aðgreini sig frá samfélaginu með einhverjum hætti sem er
samfélaginu skaðlegur. Trúarbrögðin sporna gegn þessu með boðum og bönnum,
siðferði, lögum og hinu forboðna – tabúinu. Þau koma í veg fyrir að einstakling-
urinn hefji sig upp fyrir og fjarlægist samfélagið og tryggja þannig varðveislu
hópsins.3
Næsta atriði er vitneskjan um að fyrr eða seinna muni dauðinn vitja okkar.
Manneskjan veit að hún mun deyja. Og stöðug hugsun um dauðann og hræðsla
við hann telur Bergson að geti dregið máttinn úr einstaklingi, gert honum lífið
leitt og hamlað virkni hans innan samfélagsins. En trúarbrögðin eiga ráð undir rifi
hverju og með fulltingi ímyndunaraflsins spinna þau upp alls konar hugmyndir
um framhaldslíf og endurholdgun sem sporna gegn ótta okkar við dauðann.4
Þriðja atriðið sem Bergson ræðir er að gjörðir okkar hafa ekki ávallt þær afleið-
ingar sem við ætlumst til. Þannig er framtíðin ófyrirsjánleg og full af tilviljunum.
Til að sporna gegn þessu kalla trúarbrögðin fram hugmyndir um utanaðkomandi
krafta, forlög af einhverju tagi sem stjórna framvindu hlutanna. Þannig verða til
hughreystandi skýringar á ófyrirsjáanlegum viðburðum. Einstaklingurinn trúir
því að með því að heita á almættið gangi honum allt í haginn og ef illa fer þá
stafar það ef til vill af illvilja, óvináttu, afskiptaleysi eða jafnvel ástríki guðanna,
samanber þau spakmæli að þeir deyi ungir sem guðirnir elska.5
Öll þau atriði sem Bergson nefnir tengjast tímanum með einum eða öðrum
hætti. Það mætti segja að það sem skynsemin hafi í raun opinberað manninum
sé þríþætt virkni tímans, með öðrum orðum eyðandi, skapandi og aðgreinandi
eigin leikar hans. Tíminn drepur okkur, hann kemur okkur sífellt á óvart og hann
gerir okkur að fullorðnum einstaklingum sem þurfa að kljást við aðgreiningu og
finna leiðir til að samsama sig öðrum einstaklingum á nýjan leik. Það ætti því
ekki að koma á óvart að ýmis trúarbrögð skuli hafa fundið einfalda lausn á þessu
vandamáli, með því að gera greinarmun á helgum og vanhelgum tíma.
2 Bergson 1954: 90.
3 Bergson 1954: 100–105.
4 Bergson 1954: 107–110.
5 Bergson 1954: 111–117.
Hugur 2014-5.indd 209 19/01/2015 15:09:40