Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 223
Náttúran í andlegum skilningi 223
Kenning mín í fyrri ritgerðinni – ef kenningu skal kalla – var í stuttu máli þessi:
„Að vera jarðarbúi er að finna líf sitt bundið jörðinni, ef ekki beinlínis sprottið af
henni, finna að hún er forsenda lífsins.“5 Markmið mitt var að sýna fram á að við
hefðum andlegan skilning á jörðinni sem sjálfstæðum, náttúrulegum veruleika
sem við fæðumst til og eigum í flóknu sambandi við. Ég nefni þennan skilning
„andlegan“ vegna tengsla hans við tilfinningalíf okkar og gildismat. Sá skilningur
vekur tilfinningu fyrir tengslum og aðskilnaði, hann vekur ótta jafnt sem and-
akt. Þessi skilningur á meira skylt með trúarbrögðum en vísindum, líkist töfr-
um fremur en tækni. Trúarlegar skírskotanir draga þó ekki úr vægi hans. Þvert
á móti varpa þær ljósi á vandamál sem er ekki fyrst og fremst fræðilegt heldur
snertir frumstæðustu tengsl hugans við veruleikann, alla þá óvissu og óöryggi
sem einkennir samband okkar sem skynugra skepna við sjálfan hinn náttúrulega
raunveruleika.
Í þessari ritgerð vil ég rannsaka fáeinar hliðar á þeim andlega skilningi á nátt-
úrunni sem ég reyndi að skýra í fyrri ritgerðinni. Slíkur andlegur skilningur leysir
vissulega ekki af hólmi þann vísindalega skilning á náttúrunni sem við öll þekkj-
um og skapar grundvöll tæknikunnáttu okkar. En hann kann engu að síður að
leiða okkur fyrir sjónir viðfangsefni sem okkur yfirsæist ella og vekja okkur til
umhugsunar um þau verkefni sem við þurfum að sinna til að gera grundvallargildi
og meginmarkmið tilvistar okkar að veruleika. Hlutverk siðmenningarinnar er að
standa vörð um slík gildi og markmið. En siðmenningin á það einnig til að dylja
úrlausnarefni sem takast þarf á við, og sú spurning sem mannkynið stendur nú
frammi fyrir er sú hvort við viður kennum hvað það er sem raunverulega skiptir
máli og hvort við þurfum mögulega að gera róttækar breytingar á siðmenningu
okkar.
Ein leið til að gagnrýna siðmenningu okkar nú til dags er að benda á það hvern-
ig gildi hagkvæmninnar hefur tekið sér stöðu meðal æðstu gilda, jafnvel orðið að
einskonar helgidómi, og varpa síðan ljósi á hvernig þessi andlega villa, ef ég má
komast svo að orði, leiði okkur á glapstigu. Gagnrýni af þessu tagi, sem finna má
í skrifum margra hugsuða síðustu aldar, meðal annarra Heideggers og Wittgen-
steins, verður vissulega að taka alvarlega. En ef það á að leiðrétta þessa andlegu
villu verðum við að þróa viðeigandi skilning á veruleikanum sem við tilheyrum,
skilning sem gæti gert okkur kleift að þróa eðlilegri tengsl við aðrar lífverur og
heiminn sem heild. Ég er á þeirri skoðun að bæði Heidegger og Wittgenstein,
ásamt mörgum öðrum fræðimönnum, skáldum og heimspekingum, hafi lagt heil-
mikið af mörkum til andlegs skilnings á náttúrunni. Einn lærdómur sem draga
má af framlagi þeirra er sá að við skyldum ekki vænta þess að finna lausnir á
tilvistarvandamálum okkar í tilkomumiklum kenningum. Mun fremur ættum við
að yfirvega okkar eigin reynslu af auðmýkt og hugleiða það sem aðrir geta sagt
okkur af sinni eigin reynslu af heiminum.
5 Sama rit: 18.
Hugur 2014-5.indd 223 19/01/2015 15:09:41