Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 147
Að standa ekki á sama 147
Rawls. Robin May Schott bendir á hvernig Arendt hélt því fram að hlutverk
einkalífsins væri að uppfylla þarfir okkar og þá fyrst og fremst líkamlegar þarfir.
Með því að skilja vettvang einkalífsins á þennan hátt er skapaður grundvöllur
fyrir opinbert líf þar sem líkamlegar þarfir okkar trufla ekki starf okkar á hinum
opinbera vettvangi, en það er nauðsynleg forsenda þess að við getum staðið þar
sem jafningar.34 Það er síðan sambærilegur skilningur á skiptingu í opinbert líf og
einkalíf sem rekur Rawls til þess að skilgreina siðaverurnar í kenningu sinni sem
„húsráðendur“, en ekki bara sem einstaklinga.35
Þegar við fáum siðaveruna borna á borð innan þessarar skiptingar þá er hún
vera sem er undirbúin á hinu skýrt afmarkaða sviði einkalífsins til þess að taka
þátt í lífinu á hinu opinbera sviði. Þessi hugmynd hefur þau áhrif að þeim mun
auðveldara verður að fela eða hunsa það hversu ófullkomin við erum – berskjöld-
uð – og hversu mikið við þurfum á öðrum að halda, líka í hinu opinbera rými.36
Hugmyndin um hið opinbera rými er því ekki síður skert innan hefðar réttlætis-
siðfræðinnar að því leyti sem hún vanmetur þessa þætti og gagnvirkni einkavett-
vangs og opinbers vettvangs.
Staðreyndin er sú að aðgreiningin á opinberu rými og einkarými er engan
veginn augljós. Held bendir á hvernig t.d. forræðisdeilur liggja oft á mörkum
sem erfitt er að skilgreina.37 Hvernig myndum við meta hversu mikið réttlæti og
hversu mikla umhyggju við eigum að sýna hverju sinni í forræðisdeilum? Að sama
skapi hallar mjög á konur, börn og minnihlutahópa þegar kemur að því að hvaða
leyti og hvernig hið opinbera svið er tilbúið að vasast í einkarýminu. Þar til nýlega
þótti t.a.m. mjög eðlilegt að hið opinbera skipti sér af því hvern fólk kysi sér sem
maka. Skýrasta dæmið um slíkt er að sjálfsögðu sú opinbera stefna sem ríkti lengi
vel í okkar samfélagi og víða um heim nú til dags, að samkynhneigðir mættu ekki
fá sambúð sína löglega og/eða trúarlega staðfesta. Það er því spurning um hvort
skipting siðferðisins upp í tvö aðgreind svið sé okkur ekki til trafala frekar en
hjálpar við að leysa úr þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir.
Þessi skýra skipting, sem átti kannski betur við á tímum upplýsingarinnar, rímar
ekki eins augljóslega við samtíma okkar. Við sjáum til dæmis muninn á lífi barna,
þar sem þau í einhverjum skilningi hefja „opinbert“ líf mjög snemma, í formi þess
að vera í sambandi við fólk sem er þeim ekki skylt í stórum stíl strax frá unga
aldri, fyrst á leikskólum og svo í skyldunámi í skóla. Líf barns í fangi foreldris á
sviði einkalífsins er aðeins annar póllinn á gífurlegum skala þar sem á andstæðum
pól stendur Evrópuþingmaðurinn í Brussel. Ef við höfnum þessari skýru aðgrein-
ingu blasir við gífurlega breitt svið, svið nærsamfélagsins og borgarasamfélagsins,
þar sem við hittumst sem vinir, kunningjar og nágrannar og eigum í samskiptum
sem við reynum að haga af virðingu og gagnkvæmni, og þar sem mikilvægt er að
rækta traust okkar á milli.38 Þetta svið er hvorki hið nána svið fjölskyldunnar né
samband ókunnugra einstaklinga á pólitískum vettvangi.
34 Schott 2010: 53.
35 Sbr. Rawls 1971.
36 Judith Butler ber fram svipaða gagnrýni á Hannah Arendt í Butler 2012.
37 Held 2006: 68.
38 Annette Baier hefur lagt mikla áherslu á traust sem siðfræðilegt grundvallarhugtak (sjá Baier
Hugur 2014-5.indd 147 19/01/2015 15:09:37