Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 265
Frá stjórn Félags áhugamanna um heimspeki 265
Stjórn er heimilt að skipa fleiri fulltrúa í ritnefnd ef tilefni þykir til. Ritnefndin í
heild sem og einstakir meðlimir hennar geta lagt fram tillögur að þemu einstakra
tölublaða og ritstjórnarstefnu tímaritsins til lengri tíma litið. Ritstjóri hefur þó
ætíð endanlegt ritstjórnarvald yfir efni hvers tölublaðs og situr í skjóli stjórnar
félagsins. Starfsemi ritnefndar og tilhögun sambands hennar við ritstjóra er enn
í mótun en allt bendir til að þetta fyrirkomulag eigi eftir að styrkja tímaritið til
lengri tíma litið.
Einnig bar það til tíðinda að lögum félagsins var breytt árin 2012 og 2014. Með-
al þeirra lagabreytinga sem voru gerðar árið 2012 var að nú er kveðið á um það
sérstaklega að eitt af markmiðum félagsins sé að „gefa út fræðilegt, ritrýnt tímarit
og standa að annarri útgáfu og miðlun á efni um heimspekileg málefni“.
Kjarninn í rökstuðningi stjórnar fyrir þessari lagabreytingu var að tímarit félags-
ins, Hugur, hefur nú um langt árabil verið gefið út sem fræðilegt, ritrýnt tímarit.
Sem slíkt hefur það reynst ómetanlegur vettvangur fyrir miðlun heimspekilegra
rannsókna í íslensku fræðasamfélagi. Að mati stjórnar er mikilvægt að Hugur
haldi velli sem vandað, ritrýnt fræðarit sem heimspekingar, bæði innlendir og
erlendir, sækist eftir að birta rannsóknir sínar í. Samkvæmt eldri lögum var ekki
kveðið skýrt á um hvernig tímarit Hugur ætti að vera. Það hefur vissulega sína
kosti og má gera því skóna að fræðilegt, ritrýnt tímarit höfði ekki til allra áhuga-
manna um heimspeki. Hins vegar er ljóst að með tilliti til þeirra möguleika sem
felast í rafrænni miðlun efnis á netinu er raunin sú að áhugamenn um heimspeki
geta hæglega notið aðgengilegs efnis um heimspeki sem er ekki bundið af ströng-
um kröfum um fræðileg eða akademísk vinnubrögð og ritrýni. Stjórn FÁH taldi
því að félagið ætti að beita sér bæði fyrir því að Hugur haldi áfram að njóta stöðu
sinnar sem fræðirit og miðla aðgengilegu efni um heimspeki til allra félagsmanna
sinna og annarra um netið. Lög félagsins endurspegla nú þessa framtíðarsýn.
Meðal þeirra breytinga sem voru gerðar á lögum félagsins á aðalfundi ársins
2014 var að tekin var upp ný grein, sem er svohljóðandi:
Í öllum störfum félagsins, svo sem við stjórnarkjör, skipun í starfshópa
og trúnaðarstöður á vegum félagsins (þ.m.t. ráðningu ritstjóra), útgáfu
og miðlun, skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum í sem víðustum skiln-
ingi.
Ljóst er að þrátt fyrir velvilja ritstjóra og stjórnar í gegnum tíðina til þess að rétta
af kynjahalla varðandi höfunda og umfjöllunarefni greina í Hug virðist þessi slag-
síða vera erfið viðureignar. Síðasta tölublað Hugar, númer 25, vakti hörð viðbrögð
meðal margra félagsmanna, enda hefur orðið mikil vitundarvakning um mikil-
vægi kynjasjónarmiða á undanförnum árum. Stjórn félagsins taldi því mikilvægt
að hafa í höndunum hvata til að gera betur og áminningu til allra hlutaðeigandi
um að störf félagsins endurspegli þá fjölbreyttu flóru sem heimspeki nútímans er
og verður að vera. Stjórn FÁH veit að slík lagagrein mun ekki leysa þennan vanda
í eitt skipti fyrir öll. Þessari lagagrein var þó bætt við í þeirri von að heimspek-
ingar, ritstjórar og höfundar efnis og félagsmenn leitist við að leggja sitt lóð á vog-
Hugur 2014-5.indd 265 19/01/2015 15:09:43