Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 62
62 Svavar Hrafn Svavarsson
heimspekilegrar hugsunar og breytni; þannig hefur heimspeki breyst. Hins vegar
útilokar fjölhyggja samtímans sátt um grundvallarforsendur að hætti fornmanna.
Hún krefst þess að horft sé til leiða, en ekki markmiða, því aðeins þannig verði
réttlæti tryggt.
Hagnýtt siðfræði og samtíminn
Mér sýnist orðasambandið hagnýtt siðfræði hafa að geyma dulda forsendu – reynd-
ar ekki vel dulda, en ekki augljósa.2 Forsendan í orðasambandinu er þessi: Hag-
nýtt siðfræði er ólík annars konar siðfræði að svo miklu leyti sem annars konar
siðfræði er ekki hagnýtt. Hér er gengið út frá greinarmuni fræðilegrar heimspeki-
legrar siðfræði, fyrst og fremst normatífrar siðfræði (látum grunnsiðfræði liggja á
milli hluta, þótt hún hafi ráðið lögum og lofum á fyrri hluta síðustu aldar og valdi
enn miklu) og þeirrar siðfræði sem felst í einhvers konar hagnýtingu eða beitingu
normatífrar siðfræði. Þessi greinarmunur normatífrar siðfræði (sem við skulum
framvegis einfaldlega kalla siðfræði) og hagnýttrar siðfræði er ekki augljós. Maður
gæti haldið að siðfræði væri eðli málsins samkvæmt lítils virði ef henni væri ekki
beitt eða ekki ætti beinlínis að beita henni: „[…] markmiðið er ekki vitneskja
heldur athöfn,“ sagði Aristóteles (Siðfræði Níkomakkosar 1.4.1095a5–6).3 Hann
útskýrði þetta svo (Siðfræði Níkomakkosar 2.2.1103b26–29): „Við rannsökum þessi
mál ekki til að öðlast fræðilega þekkingu, sem er oftast markmið rannsókna okk-
ar, því tilgangurinn er ekki að vita hvað dyggð sé heldur að verða góður; annars
yrði rannsóknin gagnslaus.“4
Athugum þennan mun betur. Hagnýttri siðfræði virðist fyrst og fremst beint að
afmörkuðum og oftast snúnum vandamálum mannlegs lífs.5 Þess vegna er hagnýtt
siðfræði ekki almenn á sama hátt og siðfræði er almenn. Hagnýtt siðfræði afmark-
ast við ákveðin mál og tekur lit af þeim. Í rauninni er hagnýtt siðfræði ekki heild-
stæð grein, heldur safn af greinum sem afmarkast af tilteknum vandamálum, oft
gerólíkum. Siðfræðikenning er hins vegar almenn og afmarkast ekki af tilteknum
vandamálum. Það er erfitt að beita almennri siðfræðikenningu umbúðalaust – án
tillits til aðstæðna, reynslu, fordæma, möguleika, allra staðreynda málsins – á til-
tekin mál. Það má geta sér þess til að þess vegna hafi hagnýtt siðfræði orðið
til. Því eftir stendur möguleikinn á því að beita siðfræðikenningu á vandamálið.
Þetta væri þá hagnýtt siðfræði og virðist hún upphaflega einmitt hafa verið skilin
þessum skilningi. Sá skilningur átti eftir að breytast, eins og útskýrt verður að
neðan.
Helstu birtingarform hagnýttrar siðfræði eru væntanlega af þrennu tagi. Ein-
2 „Hagnýtt siðfræði“ er þýðing á enskunni „applied ethics“. Auk þess er greinin iðulega nefnd á
ensku „practical ethics“, sem væri ef til vill betur þýtt sem „hagnýt siðfræði“, enda er það orða-
samband einnig notað; önnur siðfræði verður vart hagnýtt, nema með erfiðismunum, en sú sem
er hagnýt.
3 Aristóteles 1995: I.210.
4 Aristóteles 1995: I.254.
5 Þessa ályktun dreg ég meðal annars af efnisyfirlitum yfirlitsrita sem fást við hagnýtta siðfræði,
eins og Frey og Wellman 2005 og LaFollette 2002.
Hugur 2014-5.indd 62 19/01/2015 15:09:33