Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 206
206 Martin Heidegger
verður hún að teljast mikilvægasta framlagið til Árbókarinnar. Það var í gegnum
víðtæk áhrif Árbókarinnar sem sjá mátti framsýni og virkni Niemeyer-forlagsins
í nýju ljósi.
Hátíðarritið til heiðurs Edmund Husserl birtist stundvíslega á afmælisdegi
hans sem viðauki Árbókarinnar. Mér hlotnaðist sá heiður þann 8. apríl 1929 að
afhenda það þessum virta kennara að nemendum hans og vinum viðstöddum.
Næsta áratug á eftir gaf ég engin stærri rit út þangað til Niemeyer-forlagið
áræddi að prenta útleggingu mína á sálmi Hölderlins „Wie wenn am Feiertage,
das Feld zu sehn, ein Landmann geht“ árið 1941 án þess að geta útgáfuársins.2 Ég
hafði flutt þetta erindi í maí sama ár sem opinn gestafyrirlestur við háskólann í
Leipzig. Eigandi útgáfunnar, Herra Hermann Niemeyer, kom frá Halle til að
hlusta á fyrirlesturinn og að honum loknum ræddum við um að gefa hann út.
Þegar ég ákvað, tólf árum síðar, að gefa út eldri fyrirlestraraðir, valdi ég Nie-
meyer-útgáfuna til verksins. Hún var ekki lengur skráð í „Halle-borg við Saale-
fljót“. Eftir mikið fjárhagstjón og margvíslega erfiðleika, auk mikilla persónulegra
þjáninga, hafði núverandi eigandi endurreist fyrirtækið í Tübingen.
„Halle við Saale-fljót“ – í þeirri sömu borg hafði Edmund Husserl, þá stunda-
kennari, kennt á tíunda áratug síðustu aldar við háskólann. Síðar í Freiburg sagði
hann oft frá því hvernig Rökfræðilegar rannsóknir hefðu orðið til. Hann gleymdi
aldrei að minnast bókaforlagsins Max Niemeyer með aðdáun og þökk, útgáfunn-
ar sem tók sjálft áhættuna af því að gefa út í byrjun aldarinnar fyrirferðarmikið
verk eftir lítt þekktan kennara sem fór sínar eigin leiðir og var þar með á skjön við
heimspeki samtímans, sem gaf verkinu engan gaum svo árum skipti eftir útgáf-
una, þar til Wilhelm Dilthey kom auga á mikilvægi þess. Forlagið gat ekki vitað
á þessum tíma að nafn þess skyldi verða tengt fyrirbærafræði í framtíðinni og að
fyrirbærafræði myndi ákvarða tíðarandann á hinum ólíkustu sviðum – aðallega á
þögulan hátt.
Og í dag? Öld fyrirbærafræðinnar virðist hafa runnið sitt skeið á enda. Nú
þegar er litið á hana sem eitthvað liðið sem aðeins er skráð í sögulegu samhengi
við hlið annarra heimspekistefna. Hins vegar er fyrirbærafræðin í kjarna sínum
ekki stefna. Hún er möguleiki hugsunarinnar, sem breytist með tímanum og getur
að því leyti aðeins haldið velli, til að standast kröfuna sem viðfangsefni hugsunar-
innar gerir. Með því að upplifa og varðveita fyrirbærafræðina á þennan hátt getur
hún horfið að nafninu til í þágu viðfangsefna hugsunarinnar, þótt áfram verði á
huldu af hverju þau mæta okkur.
2 [Útlegginguna er að finna í riti Heideggers, Erläuterungen zu Hölderlins Dichtung, Frankfurt am
Main: Vittorio Klostermann 1944. – Þýð.]
Hugur 2014-5.indd 206 19/01/2015 15:09:40