Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 199
Minningarræða 199
Látum á það reyna. Búnaður, tól og vélar tækninnar í dag eru okkur öllum
meira og minna ómissandi. Það væri heimskulegt að leggja blindandi til atlögu
við heim tækninnar. Það væri skammsýni að vilja fordæma tækniheiminn sem
verk djöfulsins. Við reiðum okkur á tæki; þau hvetja okkur jafnvel til frekari
framþróunar. En skyndilega erum við svo fast hlekkjuð við þessi tæki að við erum
hneppt í ánauð þeirra.
Samt gætum við farið öðruvísi að. Við getum beitt tækjum til viðeigandi nota,
og engu að síður einnig verið svo frjáls undan þeim að við getum verið án þeirra
hvenær sem er. Við getum tekið tæki í notkun eins og þurfa þykir. En við get-
um líka látið þau eiga sig sem eitthvað sem hefur ekki áhrif á okkar innsta og
raunverulega kjarna. Við getum sagt „já“ við því að geta ekki án tækja verið, en
einnig sagt „nei“ með því að leyfa þeim ekki að ráða yfir okkur, og aflaga þannig,
rugla og eyðileggja veru okkar.
Ef við hins vegar játum og neitum tækjum samtímis með þessum hætti, verð-
ur þá ekki samband okkar við tækniheiminn tvírætt og óöruggt? Þvert á móti.
Samband okkar við tæknina verður undursamlega einfalt og afslappað. Við leyf-
um tækjum að koma inn í daglegan heim okkar, og á sama tíma höldum við þeim
utan hans, það er látum þau eiga sig, sem hluti sem eru ekki algildir heldur velta
á einhverju æðra. Ég myndi vilja nefna þessa afstöðu til tækniheimsins, sem segir
„já“ og á sama tíma „nei“, með gömlu orði, að sýna hlutunum stillingu.
Með þessari afstöðu lítum við ekki lengur aðeins á hlutina á tæknilegan hátt.
Við verðum glöggskyggn og tökum eftir því að framleiðsla og notkun véla krefst
raunar af okkur annars konar sambands við hluti, sem er þó ekki merkingar-laust.
Jarðrækt og landbúnaður, til dæmis, hafa nú breyst í vélknúinn matvælaiðnað. Þar
á sér því augljóslega stað – eins og annars staðar – róttæk breyting á sambandi
mannsins við náttúruna og heiminn. En hvaða merkingu þessi breyting hefur, er
enn á huldu.
Þannig er ákveðin merking ríkjandi í öllum tæknilegum ferlum sem gerir
kröfur til þess sem mennirnir gera og láta ógert, merking sem maðurinn hefur
ekki fyrst fundið upp og skapað. Við vitum ekki hvað hið óhugnanlega og vax-
andi vald kjarnorkutækninnar hefur í huga. Merking tækniheimsins felur sig. Ef
við gaumgæfum sér í lagi og stöðugt þá staðreynd að falin merking snertir okkur
alls staðar í heimi tækninnar, stöndum við um leið á sviði þar sem hún leynist og
leynist raunar með því að bíða okkar. Það sem sýnir sig á þann hátt og víkur sér
jafnframt undan er grunneðli þess sem við köllum ráðgátu. Ég kalla afstöðuna
sem gerir okkur kleift að vera opin fyrir merkingunni sem dylst í tækniheimum,
að vera opinn fyrir ráðgátunni.
Stilling gagnvart hlutunum og það að vera opinn fyrir ráðgátunni heyra saman.
Það gerir okkur kleift að dvelja í heiminum á allt annan hátt. Það heitir okkur
nýjum grundvelli og jarðvegi í heimi tækninnar sem við getum staðið á og staðist
án þess að okkur stafi hætta af.
Stilling gagnvart hlutunum og það að vera opinn fyrir ráðgátunni opnar augu
okkar fyrir nýrri rótfestu. Dag einn gæti hún jafnvel endurheimt í breyttri mynd
hina gömlu rótfestu sem nú er á hverfanda hveli.
Hugur 2014-5.indd 199 19/01/2015 15:09:39