Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 134
134 Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
að sú breytni gæti orðið að almennri reglu. Mill lagði hins vegar til að siðfræðin
ætti að horfa til útkomunnar en ekki skyldunnar; að siðferðileg breytni eigi alltaf
að stefna að því að hámarka hamingju heildarinnar. Ein áhrifamesta kenning
samtímastjórnmálaheimspeki er réttlætiskenning Johns Rawls í Theory of Justice
(1971). Rawls setur þar fram sáttmálakenningu sem sækir mjög í siðfræði Kants,
en heldur þó inni hugmyndum Mills um hamingju eða velferð fjöldans. Áhersla
þessara kenninga er á rökhugsun mannsins og almenn lögmál og hefur kjarni
þeirra ávallt verið réttlætið. Áherslan á rökhugsun hefur þó gjarnan verið á kostn-
að tilfinninga, þeim hefur verið ýtt út á jaðarinn og oft lýst sem óþörfum eða í
besta falli ánægjulegum viðbótum við hið raunverulega siðferði. Umhyggja fyrir
náunganum hefur því verið skilin sem það sem við gerum umfram það sem skyld-
an býður okkur.
Tilkoma femínisma og femínískra siðfræðinga og stjórnspekinga markar upp-
haf róttækrar gagnrýni á ríkjandi kenningar siðfræðinnar og stjórnmálaheim-
spekinnar. Við slíkt mat á kenningunum er horft til þess hversu mikið þær endur-
spegla hefðbundnar hugmyndir um stöðu karlmannsins á hinu opinbera sviði,
þar sem þær miðast einkum við samskipti óháðra og ókunnugra einstaklinga.
Einnig er litið svo á að í þessum kenningum sé reynslu þeirri sem einkennt hefur
líf kvenna í gegnum aldirnar hafnað. Þannig vanmeta eða hafna þessar kenningar
tilveru okkar sem tilfinningavera, sem tengdra og háðra aðila, uppalenda og um-
önnunaraðila. Í viðleitni sinni til þess að ráða bót á þessu hafa ýmsir femínísk-
ir heimspekingar reynt að laga núverandi kenningar að þessum nýju áherslum,
t.a.m. Martha Nussbaum og Susan Moller Okin.2 Aðrir hafa álitið að vinna þurfi
að nýrri tegund siðfræði sem byggir á öðrum forsendum en hefðbundin siðfræði,
t.d. Nel Noddings, Sara Ruddick, Carol Gilligan og Virginia Held.3 Þessi sið-
fræði er stundum kölluð siðfræði ástar eða siðfræði tengsla, en algengast er að
hún gangi undir nafninu umhyggjusiðfræði.4
Í þessari grein mun ég beina sjónum mínum að þeirri orðræðuhefð sem hefur
verið ríkjandi í siðfræðilegri umræðu og einkennt hana síðustu aldir. Sérstaklega
mun ég ræða tengsl umhyggju og réttlætis og beini þar athygli minni að umfjöllun
Vilhjálms Árnasonar og Sigríðar Þorgeirsdóttur um umhyggjusiðfræði. Þar mun
ég gagnrýna tilhneigingu þeirra til þess að smætta umhyggjukenningar niður í
réttlætiskenningar og tekst á við það sem ég tel vera misskilning á eðli tengsla
og aðstæðunæmis. Til að leggja grunninn að þeirri umræðu mun ég fyrst kynna
umhyggju sem siðahugtak og ákveðna margræðni þess. Grundvöllur umfjöllunar
minnar er bókin Ethics of Care eftir Virginia Held. Í henni tekst Held á við þá
2 Nussbaum 1999 og Okin 1989.
3 Noddings 1986, Ruddick 1980, Gilligan 1982 og Held 2006.
4 Í þessari grein er einkum beint sjónum að bandarískri hefð umhyggjusiðfræði. Innan evrópskrar
femínískrar heimspeki er einnig að finna vísi að umhyggjusiðfræði að því marki sem femínískir
heimspekingar á borð við Luce Irigaray leggja mikla áherslu á sjálfsveruna sem tengsla- og til-
finningaveru, sjá Irigaray 1993. Umhyggjusiðfræði á sér einnig djúpar rætur í evrópskri samúðar-
siðfræði Arthurs Schopenhauer og Davids Hume, og að sjálfsögðu í kristilegum hugmyndum um
náungakærleika.
Hugur 2014-5.indd 134 19/01/2015 15:09:36