Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 194
194 Martin Heidegger
við hugsum.3 En hvað getum við hugsað og sagt við minningarhátíð sem er helguð
tónskáldi? Er það ekki sérkenni tónlistar að „tala“ einungis á tónmáli og þurfa
þannig ekki á venjulegu tungumáli, tungumáli orða, að halda? Svo er sagt. En
spurningunni er þó enn ósvarað: Getur tónlistarflutningur og söngur einn og
sér gert þessa hátíð að minningarhátíð, þar sem við hugsum? Varla. Og því hafa
skipuleggjendur sett „minningarræðu“ á dagskrá. Hún á að hjálpa okkur að hugsa
sérstaklega til tónskáldsins sem við heiðrum og til verka hans. Slíkar minningar
lifna um leið og við rifjum upp ævi Conradins Kreutzer, gerum grein fyrir verk-
um hans og lýsum þeim. Í slíkri frásögn komumst við að ýmsu ánægjulegu og
sorglegu, ýmsu sem er lærdómsríkt og til fyrirmyndar. En þegar allt kemur til
alls er slík tala aðeins til skemmtunar. Til að hlusta á slíka frásögn þarf engrar
hugsunar við, það er engrar íhugunar krafist um það sem varðar sérhvert okkar
milliliðalaust og stöðugt í sjálfri veru okkar. Því er jafnvel minningarræða engin
trygging fyrir því að við munum hugsa við minningarhátíðina.
Verum ekki með nein látalæti. Öll erum við, líka þau okkar sem svo að segja vinna
við að hugsa, alloft fátæk í hugsun; öll erum við alltof auðveldlega hugsunar-laus.
Hugsunarleysi er óhugnanlegur gestur sem er hvarvetna á ferðinni í heiminum
í dag. Það er vegna þess að nú til dags tökum við allt inn á sem fljótlegastan og
þægilegastan hátt, til þess eins að gleyma því undireins jafn fljótt. Þannig fylgir
einn viðburðurinn fast á hæla annars. Hugsanir á minningarhátíðum verða sífellt
fátæklegri. Minningarhátíð og hugsunarleysi finnast hlið við hlið.
En jafnvel þótt við séum hugsunarlaus, afsölum við okkur ekki hæfileikanum til
að hugsa. Við notum þennan hæfileika öllu heldur óbeint, með undarlegum hætti
þó, nefnilega þannig að í hugsunarleysinu leyfum við honum að falla í órækt.
Hins vegar getur það eitt fallið í órækt sem felur í sér forsendur vaxtar, eins og til
dæmis ræktarland. Hraðbraut, þar sem ekkert vex, getur aldrei verið ræktarland.
Rétt eins og við getum aðeins misst heyrn vegna þess að við heyrum og við getum
orðið gömul aðeins vegna þess að við vorum ung, þannig getum við orðið fátæk
í hugsun eða jafnvel hugsunar-laus aðeins vegna þess að maðurinn er í grunneðli
sínu fær um að hugsa; hann hefur „anda og skynsemi“ og honum er ætlað að
hugsa. Við getum einungis misst eða, eins og sagt er, losnað undan því sem við
vitandi eða óafvitandi búum yfir.
Vaxandi hugsunarleysi hlýtur þar af leiðandi að spretta af einhvers konar ferli
sem nagar manninn nú inn að beini; maðurinn er í dag á flótta undan hugsuninni.
Þessi hugsana-flótti er ástæðan fyrir hugsunar-leysinu. Það tilheyrir flóttanum
að maðurinn vill hvorki sjá né viðurkenna að hann er á flótta. Samtímamaðurinn
mun meira að segja hreinlega þræta fyrir að hann flýi hugsunina. Hann mun
halda hinu gagnstæða fram. Hann mun – og fullkomlega réttilega – segja að
aldrei hafi verið gerðar áætlanir jafn langt fram í tímann, athuganir á jafn mörg-
um sviðum og rannsóknir framkvæmdar af jafn mikilli ástríðu og í dag. Og það
að beita skarpskyggni og yfirvegun er einkar gagnlegt. Slík hugsun er og verður
ómissandi. En – eigi að síður er hún hugsun af sérstakri gerð.
3 [Í þýsku eru sagnirnar að hugsa (denken) og að minnast einhvers (gedenken) augljóslega skyldar
samkvæmt orðanna hljóðan. – Þýð.]
Hugur 2014-5.indd 194 19/01/2015 15:09:39