Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 252
252 Sigurður Kristinsson
Samantekt og heildarmat
Ég leyfi mér að fullyrða að hér sé um að ræða stórvirki og tímamótaverk í útgáfu
heimspekirita á íslensku. Vilhjálmur býður okkur í ferðalag um gervalla sögu
vestrænnar siðfræði frá Sókratesi til samtímans. Eins og góðum leiðsögumanni
sæmir velur hann áfangastaðina af kostgæfni og lýsir því sem þar ber fyrir augu af
þekkingu, næmi og einlægni heimamannsins. Smám saman kemst lesandinn þó
nær því að finna út hvaða slóðir á þessari leið eru leiðsögumanninum kærastar og
þegar „Eftirþankarnir“ eru einnig að baki er lesandanum orðið vel ljóst hvaða sýn
það er á siðferðið sem Vilhjálmur vill miðla til okkar. Og satt að segja er erfitt að
lesa bókina spjaldanna á milli án þess að smitast af þeirri sýn.
Svo við höldum okkur við leiðsögumannslíkinguna þá kemur Vilhjálmur að
sjálfsögðu við á algengustu ferðamannastöðunum (Aristóteles, Hume, Kant,
Mill), en auk þess nemur hann staðar á fáfarnari slóðum sem fylla upp í heildar-
myndina og endurspegla áherslur og áhuga hans sérstaklega. Þó að leiðin sé löng
og verkið gríðarlega yfirgripsmikið er í því samfelldur þráður og mikið um teng-
ingar á milli kafla og þar með sögulegra tímabila. Eftir því sem fleiri kenningar
koma til sögunnar bætast við raddir í samtal um þær hugmyndir og kenningar
sem eru til umræðu hverju sinni; samtal sem skerpir á greinarmun kenninga og
bendir á samkenni þeirra eftir því sem við á. Með þessu móti fær lesandinn góða
tilfinningu fyrir því hvernig hver og ein kenning og kenningarsmiður er staðsett-
ur á tilteknum stað í siðfræðisögunni, hugmyndasögunni og sögunni almennt.
Góður leiðsögumaður þarf að hafa lipran talanda og þægilega rödd. Það sem
gerir Vilhjálm að drauma-leiðsögumanni er meðal annars ritstíll sem er í senn
látlaus og grípandi. Orðfærið er fumlaust, vandað, skýrt og laust við allan rembing,
skrúðmælgi, tækniorð eða annað sem sumir leiðsögumenn nota en stela þá um
leið athyglinni frá viðfangsefninu sjálfu. Vissulega krefst textinn fullrar athygli
lesandans, enda er umfjöllunarefnið ávallt krefjandi. En með vönduðu orðfæri og
grípandi stíl tekst Vilhjálmi að skila verki sem ég leyfi mér að fullyrða að „upp-
lýstur almenningur“ geti lesið sér til gagns og ánægju án sérstakrar forþekkingar
í hugmyndasögu eða þjálfunar í heimspeki. Meira að segja torlesnir höfundar á
borð við Kant, Hegel, Nietzsche, Kierkegaard og Foucault verða svo skýrir og
skiljanlegir í meðförum Vilhjálms að furðu sætir. Hinu er þó ekki að neita að eftir
því sem á bókina líður verður umræðan flóknari og umfjöllunarefnin sértækari
jafnframt því sem Vilhjálmur blandar sér æ meira sjálfur inn í hina heimspekilegu
umræðu, tekur afstöðu og rökstyður hana.
Ekki er auðvelt að lýsa heimspekilegri nálgun Vilhjálms í þessari bók með
einföldum hætti. Hann leggur alúð við að bregða upp jákvæðri og sanngjarnri
mynd af þeirri hugmyndastefnu eða kenningu sem hann lýsir hverju sinni. Ljóst
er að mikill lærdómur og ígrundun liggur að baki hvers einasta kafla. Þótt hann sé
ófeiminn við að fella rökstudda dóma þá er það sterkt einkenni á allri bókinni að
kenningum er lýst í jákvæðu ljósi og kostir þeirra dregnir fram. Áherslan er á að
bjóða lesandanum upp á andlega valkosti sem auðgað geta reynslu hans og túlkun
Hugur 2014-5.indd 252 19/01/2015 15:09:42