Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 88
88 Sigurjón Árni Eyjólfsson
fremur um ferli að ræða: „Konan er hvorki opin né lokuð, heldur óákvarðað og
ó-ákveðið form sem er ólokið“.67
Bókin Speculum olli fjaðrafoki og túlkuðu lærisveinar Lacans hana sem beina
árás Irigaray á læriföðurinn. Í framhaldi af deilum um bókina var Irigaray vikið
úr EFP, áðurnefndum samtökum sálgreinenda sem fylgdu Lacan að máli. Olli hér
mestu gagnrýni hennar á „fallískar“ áherslur í hugtakakerfi sálgreingarinnar og
takmarkað skýringargildi þess. Þetta var eitthvað sem menn innan þeirra herbúða
gátu vart sætt sig við.
Í bók sinni Þetta kyn sem ekki er eitt útfærir Irigaray hugmyndir sínar nánar.68
Þar leitast hún við að draga upp mynd af veruleika konunnar sem byggir á sérleika
hennar. Í greiningu sinni setur hún kynfæri kvenna á þann stall sem reðurinn
hefur hjá Freud en samt með þeim afgerandi mun að hún leyfir sérleika hvors um
sig að standa.
Nálgun hennar er því til að byrja með líffræðileg og kynbundin.69 Það sem
einkennir konuna er að sem kynvera hefur hún ekki eitt afmarkað svæði kyn-
örvunar, heldur er líkami hennar í heild eitt slíkt svæði. Hún hefur mun fleiri
fleti örvunar en karlar og þá stöðu má túlka sem skort. Í annan stað beinir hún
athyglinni að kynfærum kvenna, nánar tiltekið að skapabörmunum þar eð þeir
skýra eðli hennar.70 Á sama hátt og kynfæri og kynupplifun kvenna er flókin og
margbrotin, þannig er og líf þeirra og eðli. Þetta kemur vel í ljós ef einfaldleiki
kynfæra karla er borinn saman við kynfæri kvenna. Hjá konum leggjast barmarnir
saman, þeir snertast og fara í sundur án þess að skiljast. Þeir eru annars vegar hvor
fyrir sig og hins vegar mynda þeir saman eitthvað sem er meira en eitt og birta
þannig margbreytileika konunnar.71 Konan er ekki eitt og heldur ekki tvö, heldur
eitthvað þar á milli.72
Kyn og eðli kvenna er samkvæmt þessu flakkandi veruleiki milli eins og hins,
þ.e. í stöðugri breytingu, flöktandi og fljótandi.73 Konuna er því ekki hægt að
njörva niður við eitthvað eitt, hvað þá að leysa þessa spennu hennar upp í tvo
andstæða póla. Hún er mun fremur „mitt á milli“, full þverstæðna og möguleika.
Þessi eðlislægi margbreytileiki er afgerandi, á meðan sérleiki karlsins er bundinn
hinu eina. Eðli konunnar er því dýnamískari veruleiki heldur en karlsins.
Í þessu samhengi dregur Irigaray fram menningarlegt framlag kvenna.74 Konur
þurfi að gera veruleika sinn sýnilegan og varpa af honum þeim huliðshjúpi sem
lagður hefur verið yfir hann. Þær verða að nýta það frelsi sem líffræðilegt kyn
þeirra gerir þeim mögulegt að stefna að.75 Auk þess þurfa þær að þróa með sér
67 Irigaray 1980: 284.
68 Irigaray 1979: 48–66, 129–131.
69 Irigaray 1979: 211–224, 89–90.
70 Irigaray 1980: 285–287, Irigaray 1980: 213, Irigaray 2011: 24, Irigaray 1987: 5–6.
71 Irigaray 1979: 103–107, 212–213, 217.
72 Irigaray 1979: 215.
73 Irigaray 1979: 120.
74 Irigaray 1979: 76–80, 87. Um vægi þessara rannsókna í bókmenntum kvenna fjallar m.a. Showalter
2002: 125–159.
75 Irigaray 1980: 180–184.
Hugur 2014-5.indd 88 19/01/2015 15:09:34