Hugur - 01.01.2014, Blaðsíða 136
136 Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
slagorði sínu „the private is the political“. Hér er litið svo á að siðferðið fæðist í
hinu opinbera rými, því þar hefur manninum tekist að yfirstíga náttúru sína, í
rými þar sem samskiptin eru milli sjálfstæðra óháðra einstaklinga sem þekkjast
ekki. Í siðferðishugtaki sem sprottið er af slíkum rótum felst því að einkarýmið sé
handan siðferðisins og því hættir til að hafna gildum þeim sem þaðan spretta.
Þessi tvennd – tilfinningar og náttúran – skýtur síðan títt upp kollinum þegar
reynt er að ræða umhyggju sem siðahugtak. Vissulega er umhyggja hugtak sem
lýsir einhverju djúpu í mannlegu atferli, einhverju sem á rætur sínar að rekja til
þess sem við köllum náttúrulega þætti. Umhyggja birtist hjá öðrum dýrum en
manninum en það sem nauðsynlegt er að hafa í huga, líkt og með flest annað sem
maðurinn tekur sér fyrir hendur, er að það sem hann leggur fyrir sig öðlast alla
jafna gildi og merkingu umfram það sem „náttúran“ skóp því. Það ætti því líka
að vera ljóst að ef einhver vitræn umræða um umhyggju á að eiga sér stað verðum
við, á sama tíma og við viðurkennum „náttúrulegan“ uppruna umhyggju, að hafna
eðlishyggjuskilningi á hugtakinu.
Þegar rætt er um umhyggju í samhengi siðfræði er henni oft stillt upp til höfuðs
réttlætishugtakinu og í siðferðisorðræðu samtímans er venjan sú að setja réttlætið
skör ofar umhyggju og tilfinningum. Þetta viðhorf má eflaust kalla hið ríkjandi
viðhorf og svífur andi þess yfir helstu kenningum siðfræðinnar þar sem það birtist
með ýmsum hætti.7
Óumdeilanlega áhrifamesti fulltrúi þessa viðhorfs er Immanuel Kant. Skil-
greining hans á því hvað telst til siðferðislegrar breytni ber þess skýr merki hvern-
ig við eigum að leggja tilfinningar okkar og hneigðir til hliðar þegar við ræðum
siðferðisleg álitamál. Frægt dæmi sem hann tekur er af þremur kaupmönnum.
Allir breyta þeir eftir skyldunni, þ.e. þeir breyta á þann hátt sem skyldan býður,
en aðeins einn gerir það vegna skyldu. Þannig er fyrsti kaupmaðurinn svikari í
hjarta sínu, langar til þess að svindla á viðskiptavinum sínum en gerir það ekki
vegna hættunnar á því að upp um hann komist. Annar kaupmaðurinn er mikið
góðmenni og finnur af einlægni til samkenndar með samborgurum sínum og líð-
ur raunverulega betur af því að vera góður. Hann svíkur engan því hann finnur til
hreinnar hneigðar til þess að vera góður. Þriðji kaupmaðurinn er eins og sá fyrsti,
alger aurasál og kaldlyndur, en hann svíkur engan af því að það er skylda hans að
gera það ekki. Þeir tveir fyrrgreindu breyta ekki siðferðislega, aðeins sá þriðji. Sá
fyrsti breytir augljóslega af eiginhagsmunum, sá góðviljaði af hneigð, þ.e. hann
breytir ekki af því hvað er rétt að gera heldur eftir því hvað tilfinning hans býður
honum. Aftur á móti er í raun hendingum háð hvert tilfinningalegt atgervi okkar
er og því getur sá mælikvarði ekki verið hornsteinn siðferðis. Sá þriðji breytir hins
vegar af skyldu, hann gerir það sem er rétt vegna þess að það er rétt og breytir því
siðferðislega. Ekki er þar með sagt að Kant líti á kaldlyndi sem kost því auðvitað
7 Held (2006: 61) vitnar t.a.m. í Brian Barry og David Heyd, sem hvor um sig afgreiða umhyggju
sem hugtak utan raunverulegs siðferðis. Barry lítur svo á að við þurfum ávallt fyrst að uppfylla
þarfir réttlætis, en að því loknu sé ekkert því til fyrirstöðu að umhyggja komi til álita. Í umfjöllun
sinni um móður sem fórnar sér fyrir barnið sitt kemst Heyd að þeirri niðurstöðu að hún hafi ekki
verið að sýna hegðun sem sé í raun siðferðisleg heldur hegðun sem á heima á „sviði náttúrulegra
sambanda og eðilslægra tilfinninga (sem liggja handan siðferðis)“.
Hugur 2014-5.indd 136 19/01/2015 15:09:36