Strandapósturinn - 01.06.2009, Page 61
59
fengið frá honum fregnir af tilvist Vínlands og að þar hafi vaxið
villtur vínviður, sem gaf af sér hið besta vín, eins og hann segir.
Adam segir Svein konung hafa tjáð sér þetta og telur sig því hafa
fyrir þessum skrifum sínum trausta heimild. Adam er annars
ekki talinn mjög áreiðanlegur heimildarmaður og margt sem
hann sagði frá í ritum sínum um norðurslóðir var hreinn tilbún-
ingur, en ekki verður séð að hann hafi haft minnstu ástæðu til
að skálda upp frásögnina af vínþrúgunum á Vínlandi og gæða-
víninu sem úr því var gert. Ólíklegt er að hann hafi ekki haft rétt
eftir heimildarmanni sínum, Sveini konungi, sem hafði vafalítið
áreiðanlegar upplýsingar um Vínlandsferðirnar og fund vínvið-
arins. Sjálfsagt er þó umsögn Adams um gæði Vínlandsvínsins
orðum aukin þó ekki sé hægt að útiloka að heimildarmaður
hans, sjálfur konungurinn, hafi gert mikið úr þeim þætti. Adam
hefur vafalítið þekkt eitthvað til vínræktar og víngerðar úr
heimahögum sínum í Þýskalandi og því borið skyn á þau efnis-
atriði í frásögn konungs og gert sér grein fyrir mikilvægi þeirra.
Má því segja að frásögn hans af Vínlandi byggist á traustum
heimildum, en frásagnir hans af löndum norðan Noregs allt til
Grænlands og áfram vestur frá norðursvæðum Grænlands séu að
mestu skáldskapur, enda þau með öllu óþekkt og ókönnuð svæði
Norðurhjarans, ólíkt Vínlandi eftir Vínlandsferðirnar.
Heimildarmaður Sveins konungs hefur væntanlega eða a.m.k.
hugsanlega verið Auðunn vestfirski, sem var með konungi nokk-
urn tíma og færði honum grænlenskan hvítabjörn að gjöf eins
og segir í Auðunar þætti vestfirska. Sagan segir að vel hafi farið
á með þeim. Auðunn hefur sjálfsagt haft áreiðanlegar fregnir
af Vínlandsferðunum og því getað gefið konungi trúverðugar
upplýsingar og hefur konungi auðvitað þótt mikið til þeirra
koma. Líklegt er að Auðunn sé fæddur á að giska 10–20 árum
eftir Vínlandsferðirnar og á uppvaxtarárum hans voru einhverjir
Vínlandsfaranna eflaust enn á lífi. Hann hefur því getað aflað
sér vitneskju um ferðirnar nánast frá fyrstu hendi. Enn frem-
ur má geta þess að Auðunn fór til Grænlands þar sem hann
keypti hvítabjörninn sem hann færði konungi og hefur því hitt
menn þar sem þekktu vel til Vínlandsferðanna. Svo skammur
tími er þarna liðinn frá Vínlandsferðunum að óhugsandi er
annað en að á þær hafi verið minnst við Auðunn í fámenninu