Strandapósturinn - 01.06.2009, Page 72
70
aðrar Norður- Evrópuþjóðir hefðu náð þeirri fótfestu vestra sem
dugað hefði til varanlegrar búsetu á norðaustur- og austurströnd
Norður-Ameríku fimm hundruð árum á undan Kólumbusi.
Sagan hefði þá orðið önnur og þróun evrópskra samfélaga
sjálfsagt orðið með öðrum hætti. Jafnvel má telja líklegt að
norrænir víkingar hefðu beint árásarferðum sínum vestur um
haf og farið þangað í víking fremur en til strandsvæða Evrópu í
lok víkingaaldar. Má gera ráð fyrir að þeir hefðu haft afgerandi
forystu vestra a.m.k. lengi framan af, hugsanlega fyrstu aldirnar.
Vafalaust hefði saga Íslendinga, ekki síst, orðið önnur og sjálf-
sagt „meiri og merkilegri“? Útrás af þessu tagi frá Íslandi hefði
vafalítið verið útrás nútímans miklu fremri og víðtækari. Þetta
eru auðvitað hreinar getgátur og allsendis óvíst hvernig til hefði
tekist, en aðstæður voru þó þannig, að ekki er hægt að útiloka að
þróun mála hefði getað orðið með þessum eða svipuðum hætti.
Hvar var Vínland?
En hvar var Vínland? Um það eru skoðanir manna skiptar
enn í dag eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Páll Bergþórsson veð-
urfræðingur bendir á í bók sinni Vínlandsgátan að líklegt, eða
a.m.k. hugsanlegt sé að Vínlands sé að leita inn á Lárentsflóa
í Kanada eða jafnvel uppi í mynni Lárentsfljóts, eins og áður
getur. Margt í Vínlandssögunum styður þessa tilgátu Páls.
Koma þar til landfræðileg og veðurfræðileg rök, sem hann
gerir ítarlega grein fyrir í bók sinni. Á yfirlitskorti sem birt er í
Vínlandsgátunni, er útbreiðsla villts vínviðar í norðaustanverðri
N-Ameríku sýnd með skýrum hætti. Helsta vínviðarsvæðið og
það stærsta samkvæmt kortinu er við Lárentsfljót í Kanada í
grennd við Quebecborg á um 47° n.br. Annað svæði er reyndar
sýnt sunnarlega í New Brunswick upp með Jónsfljóti, sem renn-
ur í Fundyflóa. Vínland Leifs hefur vafalítið verið við eða nærri
strönd þar sem þeir félagar komu að landi eins og skýrt er greint
frá í Grænlendingasögu. Vínviðarsvæðið við Jónsfljót er alllangt
inni í landi og því ólíklegt að leiðangur Leifs hafi komist þangað,
enda hafa þeir varla haft tíma til að sigla svo langt suður á bóg-
inn þar sem þeir voru aðeins seinni hluta sumars og fram á haust
á Vínlandi. Stök og takmörkuð vínviðarsvæði eru einnig sýnd
austarlega í New Brunswick og sunnarlega á Nova Scotia.