Strandapósturinn - 01.06.2009, Side 90
88
Úr ritinu
SÖGUR OG SAGNIR
Skuggsjá
Safnað hefur Finnbogi Bernódusson
STÓRT SKELDÝR
Það mun hafa verið um eða eftir 1890, að maður sá var til útróðra
í Bolungavík, er Árni hét, norðlenskur. Eitt kvöld átti hann leið yfir
í Ósvör til að finna kunningja sinn. Veðri var þannig háttað, að
norðaustan hryssingur var og allmikil vindbára upp í Víkina, háir
skýjabakkar í norðaustri, en bjart í hálofti, þó grisið skýjafar, þokuhetta
á fjallatindum og tungl í fyllingu. Sigldu skýjaflókar fyrir á milli þess
sem bjart var sem um dag. Árni gekk nú sem leið liggur af Mölunum
og inn fyrir Hólsárbrú, þá niður Grundir og niður á sand. Ský var
alldimmt á, er hann kom niður á sandinn, og gengur þó greitt. En er
skýið rak frá hafði Árni gengið fram á rekald nokkurt, er hann hugði
vera. Var það í lögun sem kúptur hlemmur, geysimikill, eftir ágiskun
faðmur á hvern veg, en þó ívið meiri lengdin en breiddin. Árni gengur
að þessu og spyrnir fæti við því. Er ekkert lát á þessu. Ætlar hann nú
að beygja sig og freista að velta hlemm þessum við. En í sama bili lyftist
hann nokkuð, og út undan honum komu sex angar allsverir. Verður
Árna mjög bilt við og hrökkur nokkuð frá. Sér hann, að þetta muni vera
kvikindi nokkurt lífi gætt. Þokar hann sér aftur nær, en varlega. Þó fer
hann það nærri, að ekki mundi bilið milli þeirra vera meira en tveir
faðmar. Nær þorði hann ekki. Virti hann nú skepnu þessa fyrir sér, og
hafði hún þá alla anga úti. Voru það fjórir fætur, stuttir en sterklegir,
hali, um álnar langur, og langur en gildur háls með ávölum, lítið eitt
framdregnum haus. Kjafturinn sýndist honum allstór og vel tenntur,
tennurnar ekki ólíkar hundstönnum, en miklu gildari og sterklegri. Það
sá Árni, er dýrið opnaði kjaftinn eins og til að geispa, að tungan var
löng og gráleit á litinn. Augu voru grænleit og lítil. Halinn mjókkaði
aftur, og virtist á honum hreistur eða hornplötur smáar. Þegar Árni
hafði virt skepnu þessa fyrir sér vandlega og sett vel á sig útlit hennar,
hljóp hann upp í kambinn og sótti tvo steina, sem hvor um sig mundi
vera um fjórðungur að þyngd. Hyggst hann reyna traustleika brynjunn-
ar á dýrinu. Tvíhendir fyrst annan steininn yfir höfuð sér og sendir af
alefli ofan á skjöld dýrsins. Buldi hátt við, en ekkert lát var á skildinum.