Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 20
ANDVARI SÉRA PÉTUR SIGURGEIRSSON 19
úr MR, Geirþrúður Hildur Sívertsen, síðar Bernhöft (1921–1987), sem
lauk guðfræðiprófi vorið 1945, fyrst íslenskra kvenna.26
Pétur og félagar hans hófu nám á miklum breytingatímum í
sögu Háskóla Íslands. Sumarið 1940 flutti starfsemi skólans úr
Alþingishúsinu í hina nýbyggðu „aðalbyggingu“ á Melunum en hún
þótti eitthvert veglegasta hús sem reist hafði verið á landinu til þessa.
Var byggingin vígð 17. júní.27 Þrátt fyrir hernám Breta um vorið hélt
Háskólinn nýbyggingunni öfugt við það sem gerðist með MR og
Þjóðleikhúsið sem þá var í byggingu.28 Með flutningunum hófst nýtt
og viðburðaríkt framfaratímabil í sögu Háskólans.29 Þetta átti ekki síst
við um guðfræðideildina sem nú fékk sína föstu kennslustofu á ann-
arri hæð hússins, hina gömlu V stofu (nú A229), og kapellu handan
gangsins sem gaf aukna möguleika á verklegri kennslu prestsefna,
m.a. á vettvangi barnastarfs, en þar var lengi starfræktur sunnudaga-
skóli líkt og verið hafði á prestaskólaárunum.30 Var kapellan vígð degi
á undan háskólabyggingunni sjálfri, 16. júní 1940, en vígsla bygging-
arinnar hófst með guðsþjónustu í kapellunni.31
Hvað svo sem segja má um hlutverk guðfræðideildarinnar við upp-
haf fimmta áratugar liðinnar aldar voru bein söguleg tengsl hennar við
Prestaskólann rofin, en kennarar Péturs voru af fyrstu kynslóð guð-
fræðikennara sem ekki höfðu starfað við hann. Samt sem áður átti
guðfræðideildin áfram í margháttuðu sambandi við þjóðkirkjuna og
er það að sumu leyti enn til staðar.32 Þangað voru t.a.m. sóttir tveir
biskupar eftir þetta, Ásmundur Guðmundsson (1888–1969) 1954 og
Sigurbjörn Einarsson (1911–2008) 1959 og einn vígslubiskup, Jónas
Gíslason (1926–1998), sem tók biskupsvígslu 1989 en gegndi áfram
starfi við deildina til 1990 er ný lög um skipan prestakalla og prófasts-
dæma og um starfsmenn þjóðkirkjunnar tóku gildi. Með þeim urðu
vígslubiskupsembættin að fullu starfi.33
Guðfræðideildin var þannig skipuð þegar Pétur hóf þar nám,
að Magnús Jónsson, forveri Sigurgeirs Sigurðssonar á Ísafirði, og
Ásmundur Guðmundsson gegndu prófessorsembættum en Sigurður
Einarsson (1898–1967), síðar prestur í Holti undir Eyjafjöllum, var
dósent. Eins og gefur að skilja var biskupssonurinn kunnugur öllum
þessum lærifeðrum.34 Raunar má segja að með kennarakynslóð Péturs
hafi einnig verið bundinn endi á tengsl við aðra menntastofnun sem
löngum hafði gegnt bæði beinu og óbeinu hlutverki í íslenskri prests-