Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 46
ANDVARI SÉRA PÉTUR SIGURGEIRSSON 45
Við þessi biskupaskipti gátu fulltrúar óvígðra trúnaðarmanna í
þjóðkirkjunni í fyrsta sinn tekið þátt í kjörinu, þ.e. óvígðir fulltrúar á
kirkjuþingi og í kirkjuráði ásamt einum kjörmanni úr hverju prófasts-
dæmi utan Reykjavíkur sem átti tvo kjörmenn.183 Var það einkar vel
viðeigandi þar sem Pétur hafði sem sóknarprestur viljað efla óvígða
sem mest til þátttöku í kirkjustarfinu. Hér skal þó engum getum leitt
að því hver áhrif þetta kann að hafa haft á niðurstöður kosninganna.
Um kjörið sagði Pétur er úrslitin lágu fyrir:
Mér þykir vænt um, að sú nýbreytni gat komist á, að þeir [þ.e. „leikmenn“]
yrðu til þess kvaddir, því að ég er þeirrar skoðunar, að það sé mjög heillavæn-
legt fyrir kirkjuna að fela leikmönnum störf og kalla þá til meiri þjónustu og
ábyrgðar en hingað til hefur tíðkast.184
Sá tíðindamaður Morgunblaðsins sem ræddi við Pétur er atkvæði
höfðu verið talin var Sverrir Pálsson sem verið hafði virkur í safnaðar-
lífinu á Akureyri og skrifaði síðar sögu þess. Innti hann Pétur eftir
hvort hann mundi áfram leggja sömu áherslur í kirkjustarfinu og hann
hafði gert á Akureyri þar sem hann hefði reynst „[…] frumkvöðull að
æskulýðsstarfsemi í nýju formi innan kirkjunnar.“185 Má líta á svar
Péturs sem drög að stefnuskrá:
Ég ákvað þegar við upphaf prestskapar míns að vinna allt það sem ég gæti til
þess að laða börn og unglinga inn í kirkjuna, svo að þau fengju ung það vega-
nesti, sem entist þeim til heilla til leiðarloka ævibrautar. — En auk æskulýðs-
starfs hefur kirkjan á síðustu áratugum tekið sér ýmis verkefni fyrir hendur
og fætt af sér merkilegar stofnanir og starfsþætti. Þar vil ég einkum nefna
hjálparstofnunina, sjómannastarfið, söngmálastarfið og nú síðast útgáfustarf-
semi. […] Kirkjan þarf alltaf að vera vakandi, þjóna samtíð sinni og boða
fagnaðarerindið, sem er náttúrulega alltaf hið sama.186
Til að varpa ljósi á viðhorf manna til biskupskjörs Péturs skulu hér
tilfærð ummæli Jónasar Kristjánssonar (1940–2018), ritstjóra DV, sem
skoða má sem nokkurs konar utanaðkomandi mat:
Séra Pétur er vel að biskupskjörinu kominn. Hann hefur reynzt maður sátta og
samlyndis og hefur haft gott lag á samstarfi við aðra, líka þá, sem eru honum
ekki sammála. […]
Í flestum, ef ekki öllum, […] atriðum mun séra Pétur njóta stuðnings lærðra
og leikra í kirkjunni.187