Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 52
ANDVARI SÉRA PÉTUR SIGURGEIRSSON 51
Öfugt við dómsvaldið er vígsluvaldið óskorað í höndum biskups
og hefur jafnvel aukist í seinni tíð eftir að vígslur kirkna og jafnvel
kirkjugarða, sem og einstakra kirkjugripa, hafa orðið biskupsverk með
bættum samgöngum. Áður voru þær alfarið í höndum prófasta eða
jafnvel sóknarpresta. Þrátt fyrir að Pétur sæti aðeins tæp átta ár á bisk-
upsstóli komu fjölmargar vígslur í hans hlut. Hann vígði tvo presta
í Akureyrarkirkju á vígslubiskupsárum sínum. Þá endurvígði hann
Flugumýrarkirkju í Blönduhlíð auk hinnar gömlu Svalbarðskirkju eða
Minjasafnskirkjunnar eftir flutning hennar til Akureyrar.206 Samtals
vígði hann hálfan fimmta tug presta sem sýnir mikla endurnýjun í
prestastétt á níunda áratug liðinnar aldar.207 Ennfremur vígði Pétur
tvo presta biskupsvígslu. Var annar þeirra fornvinur hans og sam-
starfsmaður, Sigurður Guðmundsson á Grenjaðarstað, sem tók við af
honum sem vígslubiskup í Hólaumdæmi. Samstarf þeirra Péturs hélst
áfram náið í biskupstíð beggja og átti Sigurður tvívegis eftir að vera
staðgengill Péturs.208 Þá vígði Pétur Ólaf Skúlason til vígslubiskups í
Skálholtsbiskupsdæmi hinu forna 1983 og setti hann loks inn í emb-
ætti biskups Íslands við eigin starfslok í júní 1989.209
Alls vígði Pétur tug kirkna enda var níundi áratugurinn mikið kirkju-
byggingaskeið á Stór-Reykjavíkursvæðinu en átta þessara kirkna risu
einmitt þar.210 Af kirkjuvígslunum hlýtur vígsluathöfn Hallgrímskirkju
í Reykjavík að bera hæst enda er þar um eftirminnilegan atburð að
ræða fyrir alla sem viðstaddir voru. Vígsludagurinn, 26. október 1986,
var bjartur haustdagur og vakti það sterk hughrif að ganga inn hvítmál-
að og uppljómað kirkjuskipið í upphafi athafnarinnar. Undirbúningur
að byggingu kirkjunnar hófst þegar 1940 í kjölfar þess að Reykjavík
var skipt upp í fjögur prestaköll.211 Sagan segir að Sigurgeir, faðir
Péturs, hafi haft mikil áhrif á hvert endanlegt útlit kirkjunnar varð
með því að velja milli tveggja líkana sem gerð höfðu verið eftir upp-
dráttum Guðjóns Samúelssonar.212 Bygging kirkjunnar tók sama tíma
og Ísraelsmenn hröktust um eyðimörkina forðum og einu ári betur,
en fyrsta skóflustunga að henni var tekin í árslok 1945.213 Upphaflega
mun Sigurgeir hafa áformað að byggt yrði hús er m.a. hýsti biskups-
skrifstofu í næsta nágrenni kirkjunnar og að þannig risi miðstöð þjóð-
kirkjunnar á Skólavörðuhæð.214 Er sú hugmynd eins konar framhald
af háborgarhugmyndum Guðjóns Samúelssonar. Eins og kunnugt er
vakti kirkjubyggingin, stærð hennar, útlit og stíll auk kostnaðarins við
bygginguna mikla gagnrýni og deilur sem stóðu árum saman.215 Má