Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 135
134 ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON ANDVARI
Þannig sveipar Zweig atburðarásina vissri dulúð; stöðugt er verið að spinna
örlagaþræði sögunnar. En á hinn bóginn felur áhersla hans á andartakið og á
einstaklinginn, háan sem lágan, í sér andóf gegn öllum hugmyndum um að
hinn stríði straumur í lífi samfélaga sé náttúrulegur og óhjákvæmilegur eða
að mikilvæg atvik verði skýrð með sögulegri nauðsyn. Hann vill gera ráð
fyrir sköpunarrými einstaklingsins; og þeir sem skynja vitjunartímann geta
einnig þolað ósigur með því að finna sér nýjan flöt tilvistar og tjáningar, eins
og sést í öðrum þætti í bókinni sem segir af ástamálum hins aldraða skáld-
jöfurs Goethe þar sem hann skröltir í hestvagni áleiðis heim til Weimar í
september 1823. Slík ódáinsandartök geta einnig orðið til andspænis dauð-
anum, eins og hjá Tolstoj, svo sem áður gat um, og raunar átti Zweig eftir að
skrifa þátt út frá þeim veraldarmínútum í Astapovo.
Því að hann lét ekki sitja við þá fimm söguþætti sem hann birti 1927; þeir
urðu alls fjórtán talsins. Að minnsta kosti tveir af þeim sem við bættust síðar
hafa birst á íslensku, annar fjallar um tilurð franska þjóðsöngsins og höfund
hans og hinn um fall Konstantínópel.25 Það hefur löngum verið áhugi fyrir
slíkum söguþáttum á Íslandi og hinir kunnu þættir Sverris Kristjánssonar og
Tómasar Guðmundssonar, sem birtust í nokkrum bókum á sjötta og sjöunda
áratug síðustu aldar undir yfirskriftinni Íslenskir örlagaþættir, minna um
sumt á söguþætti Zweigs og enduróma heitið á þýðingu Magnúsar á þáttum
Zweigs: Undir örlagastjörnum. Í verkum af þessu tagi á sér stað samsláttur
sagnfræði og sagnalistar sem er vandasamur en getur verið heillandi. Oft eru
slíkir þættir bornir uppi af meginþráðum í lífi merkra einstaklinga og í sér-
stökum bókaflokki útfærði Zweig slíka umfjöllum í lengri þáttum sem kalla
mætti esseyjur og bera raunar einnig svipmót formlegra ritgerða í grein-
ingu sinni á viðfangsefninu. Bækurnar eru þrjár og er hverri þeirra þrískipt.
Bókaflokkinn kallaði Zweig Baumeister der Welt, en það heiti þýddi Thor
Vilhjálmsson laglega sem Höfuðsmiði heimsins og hann lýsir bókunum svo:
Drei Meister, 1920, fjallar um Balzac, Dickens og Dostójevskí, þar ætlaði hann að
lýsa þrem skáldsagnahöfundum, sínum af hverju þjóðerni sem bregða upp stórri
veraldarmynd; þá kom flokkurinn Der Kampf mit dem Dämon 1925 um Hölderlin,
Kleist og Nietzsche, sjálfseyðingarsnillinga sem eru hafnir af demón sínum á loft
og þyrlað aftur niður í víti tortímingar. Þriðji þátturinn er um sjálfslýsingarmeist-
ara: Drei Dichter ihres Lebens 1928, og segir frá Casanova, Stendahl og Tolstoj.
Þetta er geysimikið og verðmætt verk þar sem höfundurinn kannar sálardjúp snill-
inganna og reynir að gera sér grein fyrir því hvernig andi þeirra starfaði og þeim
öflum sem brutust þar um.26
Með þessum bókum, undir þessari yfirskrift, leggur Zweig sitt af mörkum
til verðmætamats sem myndað geti grundvöll þess að ræða um menningu á
heimsvísu (þótt sjálfur haldi hann sig einkum við Evrópu). Þá á hann ekki