Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 137
136 ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON ANDVARI
En skömmu síðar lætur sögumaður svo um mælt: „Með hvílíkri list og hug-
vitssemi er það, sem sagan vefur örlög þessarar alvanalegu konu inn í sorgar-
leik sinn. Með djöfullegri slægð dekrar hún fyrst við þessa konu“ (11). Því
að María er fædd inn í keisarafjölskyldu; hún er barn Maríu Teresu sem
stýrir hinu víðlenda Habsborgaraveldi og fjórtán ára er dóttirin gefin Louis-
Auguste sem fjórum árum síðar verður Loðvík konungur sextándi og hún
þar með drottning Frakklands. Til þessa hjónabands er vitaskuld stofnað á
pólitískum forsendum; það á að skapa hagkvæm tengsl milli Habsborgara og
Búrbóna. Öllu er tjaldað til í upphafi af hálfu beggja aðila og í því sambandi
dúkkar upp orðið „óhóf“ í íslensku þýðingunni (15) og má það teljast lykil-
orð í verkinu og hittir um sumt betur í mark en „Luxus“ í frumtextanum.
Zweig spinnur lipurlega inn í söguna áhyggjur Maríu Teresu, sem veit að
unglingsdóttir hennar hefur ekki öðlast þroska til að takast á við nýjar að-
stæður sínar og hún reynir sem best hún má að halda uppeldinu áfram í stöð-
ugum bréfaskiptum þeirra mæðgna. Það vakti talsverða athygli á sínum tíma
að Zweig ræðir tiltölulega hispurslaust um hjónaband og kynlíf þessara göf-
ugustu hjóna Frakklands. Þau eignast lengi vel ekki erfingja, því að Loðvík
reynist eiga við einhvern líkamlegan annmarka að stríða sem er honum til
trafala í hjónasænginni. „Lúðvík XVI. er varnarlaus gagnvart konu sinni
vegna þessa annmarka síns, hann verður þræll hennar, en ekki eiginmaður.
[...]. Ráðherrarnir, María Theresía og öll hirðin horfa óttaslegin á það, að allt
valdið hverfur til þessarar ungu og duttlungafullu konu, sem leikur sér gá-
lauslega með það“ (26). Á hinum líkamlega kvilla finnst lausn um síðir en
þá hefur hjónabandið þegar mótast af þessum vanmætti konungs. Og þannig
getur freudistinn Zweig smeygt þeirri hugsun inn í sögu sína að rekja megi
þráð frá vandræðum í hjónasænginni yfir í brösulega meðhöndlun ríkisvalds
sem eigi drjúgan þátt í ólgunni er leiddi til frönsku byltingarinnar.
Zweig gerir sér heilmikinn mat úr andstæðum þeirra hjóna: „Hann
er þunglamalegur, hún fislétt; hann er klaufalegur, hún lipur [...], hann er
taugasljór, hún duttlungafull og viðkvæm; hann er óákveðinn, hún of fljót
að taka ákvörðun; [...] hann er sparsamur, hún eyðslusöm [...]. Honum líður
bezt einum, hún kann best við sig í glaumi og margmenni“ (62–63). María
Antoinette vanrækir hlutverk sitt sem drottning ríkisins en verður þess í stað
drottning hins freyðandi rókókóstíls. En það gerist vegna þess að konungur
er drumbur sem virðist ekki lifna við nema þegar hann er á veiðum, ef marka
má frásögn Zweigs, sem gengur mjög langt í slíkri sviðsetningu Loðvíks sex-
tánda, raunar svo að jaðrar við grótesku. En það gerir hann meðal annars til
að undirbúa sviðið undir lokaþáttinn, þegar allt er komið í óefni. Það dimmir
yfir og kvöldið þegar Loðvík, „fyrrverandi stjórnandi Frakklands flytur úr
höll forfeðra sinna í fangelsi, skiptir einnig hinn nýi stjórnandi Frakklands
um dvalarstað. La guillotine, fallöxin, er flutt úr Conciergeriegarðinum og