Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 122
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
Heimsmyndir, ögurstundir, manntafl
Viðkoma Stefans Zweigs á Íslandi
Forspjall um tvær bækur
Bækurnar Veröld sem var (Die Welt von Gestern) eftir austurríska rithöf-
undinn Stefan Zweig og Skáldatími eftir Halldór Laxness eiga margt sam-
eiginlegt þegar að er gáð. Sögumennirnir eru um sextugt þegar þeir ganga
frá þessum bókum sínum, annar í heimsstyrjöld sem hann sér ekki fyrir
endann á, hinn í kalda stríðinu sem einnig lítur út fyrir að geta orðið lang-
dregið. Mótunarár þeirra eru að baki; báðir eru alþjóðlega viðurkenndir rit-
höfundar sem hafa öðrum þræði leitað söguefna á fyrri öldum en einnig rýnt
í samtímaheim sinn og gert sér far um að kynnast honum persónulega. Þeir
hafa ferðast mikið – í „London-Paris-Roma-lestinni“, svo notað sé orðalag
Halldórs – og lagt sig fram um að rækta alþjóðleg tengsl. Og á slíkum vett-
vangi kynntust þeir; voru samskipa árið 1936 ásamt fleiri rithöfundum sem
sigldu frá Evrópu, þar sem sitthvað uggvænlegt var á seyði og raunar þegar
hafin borgarastyrjöld á Spáni, einungis 18 árum eftir lok heimsstyrjaldar.
Ferðinni var heitið á heimsþing í Suður-Ameríku þar sem rætt skyldi um
bókmenntir, frelsi og frið.
Bæði verkin togast á við sjálfsævisagnaformið og standa, að segja má, í
senn innan og utan þess. Það er því fremur óheppilegt að íslenska þýðingin
á bók Zweigs skuli beinlínis hafa fengið undirtitilinn Sjálfsævisaga. Þegar
frumtextinn var gefinn út í Stokkhólmi 1942 var honum valinn undirtitillinn
Erinnerungen eines Europäers, þ.e.a.s. Minningar Evrópubúa. Zweig hafði
sjálfur ekki tekið af skarið með það. Í bréfi til forlagsins kvaðst hann helst
hafa viljað láta koma fram í titlinum að Evrópa hafi verið heimur hans en
hann vilji þó ekki að það sé túlkað sem svartsýni.1 Þeir sem önnuðust út-
gáfuna virðast hafa litið til þessara orða – sem og sjálfsvígs höfundarins í
millitíðinni – þegar gengið var frá undirtitlinum. Engin ástæða var til að
sniðganga svartsýnina og heimur Zweigs var að stórum hluta í hers höndum
þegar hann sendi handritið frá sér og ljóst að sá heimur yrði ekki samur.
Evrópa var orðin að stað minninga.
Hér komum við vitaskuld að því sem aðgreinir þessar bækur – og það er
bæði stund og staðir. Það er kynslóðamunur á þessum höfundum, auk þess