Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 148
ANDVARI HEIMSMYNDIR, ÖGURSTUNDIR, MANNTAFL 147
eða þeirra gríðarmörgu tilvísana til Zweigs sem finna má í íslenskum blöð-
um og tímaritum (sbr. timarit.is), að Veröld sem var og Manntafl, tvö síðustu
ritverkin sem Zweig gekk frá áður en hann stytti sér aldur, eru þau verk sem
halda nafni hans mest á lofti á Íslandi.
Athyglin sem Manntafl hefur fengið í íslensku samhengi tengist að vísu
oft skákiðkuninni sjálfri, þ.e.a.s. oft er vísað til sögunnar þegar rætt er um
skák og það var raunar sérlega algengt í kringum heimsmeistaraeinvígið í
skák sem fór fram í Reykjavík 1972. Eins hefur nokkuð verið til umræðu
að Zweig kunni að hafa byggt persónu annars skáksnillingsins í sögunni
á Íslendingi, Birni Kalman.44 En fyrst og síðast er Manntafl magnþrungin
nóvella, í senn hnitmiðuð og margvísandi. Fyrsta málsgreinin er skýr og
markviss en tímavísanir virðast samt fela í sér einhverja aukalega merk-
ingu, einkum orðin „Bewegung der letzten Stunde“ (og aftur erum við
komin um borð í skip og stefnum til Suður-Ameríku): „Auf dem großen
Passagierdampfer, der um Mitternacht von New York nach Buenos Aires ab-
gehen sollte, herrschte die übliche Geschäftigkeit und Bewegung der letzten
Stunde.“45 Svo mjög sem ég kann að meta framlag Þórarins Guðnasonar til
íslenskunar á sögum Zweigs, hef ég aldrei getað fellt mig við þessa upphafs-
málsgrein í gerð hans (og sérstaklega ekki þessa „ætlun“ skipsins): „Stóra
farþegaskipið, sem ætlaði til Buenos Aires, átti að láta í haf frá New York á
miðnætti, og innanborðs var ys og þys, eins og ævinlega þegar líður að brott-
för.“46 En titill verksins er betri hjá Þórarni en Zweig: íslenska orðið „mann-
tafl“ dramatíserar tengsl manneskju og þeirrar iðju sem skák er, hvernig
sem sú iðja er skilin: sem leikur, íþrótt, list – en þá líka sem hernaðarlist;
við erum með vissum hætti komin aftur til Waterloo í þætti Zweigs sem
áður var ræddur, nema hvað nú skynjum við af fullum þunga raun þess ein-
staklings sem er peð – og fórnarlamb sálrænna pyndinga – í valdatafli þeirra
sem einskis svífast. Manntaflið birtist í ótal myndum í sögunni og vekur
mann einnig til umhugsunar um hvernig það fer fram í mörgum sagnaverk-
um Zweigs sem og í lífi hans; um mikilvægi fórnarinnar, undankomuleiðir,
óttann við að króast af, leiktímann sem gefst – og um það stöðuga manntafl
sem fram fer í huga hvers og eins og ríður sumum að fullu.
TILVÍSANIR
1 Sbr. eftirmála Olivers Matuscheks við bók Zweigs: Die Welt von Gestern. Erinnerungen
eines Europäers, ritstj. Oliver Matuschek, Frankfurt am Main: S. Fischer, 2017, bls. 639-
663, hér bls. 646–647.
2 Stefan Zweig: Veröld sem var. Sjálfsævisaga, þýð. Halldór J. Jónsson og Ingólfur
Pálmason, Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1958, bls. 11. Eftirleiðis munu til-
vísanir til þessarar útgáfu birtast sem blaðsíðutal í svigum innan meginmáls.