Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 54
ANDVARI SÉRA PÉTUR SIGURGEIRSSON 53
þann vanda sem tengdist HIV-sjúkdóminum og þungunarrof af félags-
legum ástæðum. Árið 1987 leit Pétur, líkt og ýmsir aðrir, svo á að HIV
sem á máli þess tíma kallaðist eyðni væri sjúkdómur sem vart ætti sér
hliðstæðu í sögunni nema ef hugsanlega væri holdsveiki fyrr á tímum.
Pétur var þeirrar skoðunar að í almennri umræðu um málið væri ekki
nægilega fjallað um hvernig bæri að varast sjúkdóminn og fyrirbyggja
hann.219 Um það efni sagði hann:
Fáar syndir eru nefndar eins oft í Biblíunni og synd siðleysis. Maðurinn þarf
að vita mörk þess, sem er gott og illt, rétt og rangt í samskiptum kynjanna og
öðlast siðferðisstyrk til þess að breyta samkvæmt því. Eins eðlilegt og sjálfsagt
sem það er að ást karls og konu leiði til kynlífs þeirra á milli, er það andstætt
réttu og góðu siðferði að það gerist utan hjónabandsins. Við það er átt með
boðorðinu: Þú skalt ekki drýgja hór.220
Og enn fremur:
Til þess að skera upp herör gegn eyðni þarf að koma siðferðileg endurvakning
með þjóðinni. Það er ekki einvörðungu baráttan gegn eyðni, sem kallar á þau
viðbrögð, heldur bæði andlegt og líkamlegt heilsufar þjóðarinnar, gæfa hennar
og framtíðarheill. Ég get ekki tekið undir það álit, að þessi sjúkdómur sé
refsing frá Guði, eins og eitt sinn var talið að holdsveikin væri. Hér er miklu
fremur um afleiðingu að ræða af röngu líferni og aðvörun til réttrar lífsstefnu.
Hvort tveggja vekur okkur til endurmats á kristinni trú og lífsskoðun. Það er
lækningin, sem við þurfum helst á að halda.221
Við þetta tækifæri dró Pétur svo upp útlínur að hjónabandsskilningi
sínum og kirkjunnar. Áréttaði hann að hjónabandið væri „[…] elsta
og þýðingarmesta stofnun mannlífsins […]“ og „[…] ákvarðandi fyrir
framvindu lífsins á jörðinni“.222 Það er því ljóst að hjónabandsguð-
fræði Péturs byggði á gagnkynhneigðarhyggju, enda umræður um
hjónaband samkynhneigðra ekki komnar á dagskrá í níunda áratug
liðinnar aldar.
Á prestastefnu þetta sumar sem haldin var undir forsæti Sigurðar
Guðmundssonar í forföllum Péturs var samþykkt ályktun sem byggð
var á áskorun heilbrigðisnefndar Alkirkjuráðsins. Svo virðist sem farið
sé vægar í sakirnar í ályktun prestastefnunnar en í umfjöllun biskups.
Hann sýnist mæla með skírlífi meðan synódus heitir frekar á fólk að
lifa ábyrgu kynlífi.223 Annars var brugðist við HIV-vandanum með
ýmsum hætti í kirkjunni. Málefnið kom t.d. þráfaldlega til umfjöllunar