Andvari - 01.01.1980, Blaðsíða 56
54
ÁRNI KRISTJÁNSSON
ANDVARI
halda lengra eins og hann hafði ætlað sér. Hann fær svimaköst og höfuðkvalir
heiftarlegri en fyrr, missir matarlystina, getur ekki sofið. 11. nóvember leggst
hann í rúmið í húsi bróður síns, þar sem hann nú á sinn samastað. 12. nóvember
skrifar hann Schober vini sínum á þessa leið:
„Ég er sjúkur. Hefi ekki bragðað mat eða drykk í ellefu daga og reika
máttfarinn og skjögrandi fram og aftur milli hægindastólsins og rúmsins míns.
Rinna [læknirinn] stundar mig. Ef ég reyni að láta eitthvað í mig, sel ég því
óðar upp. Góði, gerðu mér þann greiða í þessu örvæntingarfulla ástandi mínu að
hjálpa mér um eitthvað að lesa. Ég hefi lesið „Síðasta móhikanann“, „Njósnarann“,
„Hafnsögumanninn“ og „Landnemann“ eftir Cooper. Ef þú átt einhverja aðra
bók eftir hann, grátbæni ég þig um að senda mér hana í kaffihúsið til frú Bogner.
Bróðir minn, sem er samvizkusemin sjálf, mun koma henni til skila. Eða eitthvað
annað. Þinn vinur Schubert.“
Hann lifði aðeins eina viku eftir að hann skrifaði þetta bréf. 18. nóvember
fékk hann óráð. Hann leitar að Beethoven, starir í augu læknisins, grípur hend-
inni í vegginn og segir: „hér enda ég.“ Miðvikudaginn 19. nóvember 1828 urn
nónbilið er Franz Schubert allur. Hann var talinn hafa dáið úr taugaveiki. Hann
var grafinn föstudaginn næsta þar á eftir, daginn fyrir Cecilíumessu, í Wáhringer-
kirkjugarði skammt frá gröf Beethovens. Vinir hans reistu honum þar síðar
minnisvarða, og samdi einn þeirra, skáldið Grillparzer, grafskriftina:
„Die Tonkunst vergrub hier einen reichen Besitz,
aber noch viel schönere Hoffnungen.“
(Þ. e. Tónlistin gróf hér mikinn auð, en þó enn miklu fegurri vonir.)
Reiturnar, sem Schubert skildi eftir, fatnaður og rúmföt, gömul nótnablöð,
voru metnar á 63 gyllini. Sjúkdómslegan og útförin kostuðu aðstandendur hans
nærri 300 gyllini. Schubert átti ekki fyrir útförinni. En allt mannkyn fær nú að
njóta auðsins, sem í verkum hans er fólginn, meðan tónlistin enn er hjartans mál
einstaklinga og þjóða.