Andvari - 01.01.1980, Blaðsíða 18
16
JÓN JÓNSSON
ANDVARI
Þegar síðari heimsstyrjöld skall á, ákvað ríkisstjórnin að leigja skipið
til fiskflutninga eins og að framan getur, og lauk þar með þætti þess í
sögu íslenzkra hafrannsókna.
Rannsóknaaðstaðan um borð í Þór hafði í för með sér meiri mögu-
leika til gagnasöfnunar en áður, en auk þorsks og síldar var safnað tals-
verðum gögnum af ýsu, ufsa, lýsu, spærlingi, kolmunna, lúðu, skarkola
og karfa. Voru gerðar umfangsmiklar lengdarmælingar á þessum tegundum
og talsvert af þeim ákvarðað með tilliti til aldurs. A árunum 1937-1939
ákvarðaði Arni t. d. aldur á tæplega 13 þús. þorskum og lét mæla lengd
á rúmlega 100 þúsund, auk þess sem hann aldursgreindi tæplega 25 þús-
und þorska á árunum 1928—1936. Þeir sem til þekkja vita, að hér er um
mjög mikla vinnu að ræða og það jafnhliða fjölmörgum öðrum rann-
sóknum, enda var Arni hamhleypa til allrar vinnu.
Gerðar voru einnig aldursákvarðanir á öðrum þeim tegundum, sem
nefndar voru hér að ofan að undanteknum karfanum.
Auk rannsókna á fiski voru gerðar margvíslegar athuganir á ýmsum
hryggíeysingjum svo sem rækju, leturhumri og kolkrabba (smokkfiski).
A þessum árum voru einnig framkvæmdar allmiklar rannsóknir á
plöntusvifi, og annaðist þær dr. Finnur Guðmundsson. Voru rannsóknir
þessar gerðar bæði í leiðöngrum Þórs svo og með skipum Eimskipafélags
Islands.
Þá var árið 1934 byrjað á rannsóknum með s. k. átuháf, en það er
holur sívalningur með silkisigti, sem hægt er að draga á eftir hvaða skipi
sem er á ful'lri ferð. Með tæki þessu fékkst allglögg vitneskja um samband-
ið milli átumergðar og síldarmagnsins í sjónum.
Ekki var hægt að sinna sjórannsóknum að neinu ráði. Þó var safnað
sýnishornum af sjó víðs vegar við landið, en gögnin síðan send til Kaup-
mannahafnar til frekari athugana.
Snemma var Arna ljóst, að sóknin í íslenzku fiskstofnana var orðin
hættulega mikil og sumir þeirra voru farnir að láta á sjá ískyggilega á ár-
unum fyrir síðari heimsstyrjöldina. Af þeim sökum lagði íslenzka ríkis-
stjórnin fram tillögu á alþjóðafundi í London árið 1937 um möskvastærð
í botnvörpu og stærðartakmarkanir á lönduðum fiski, þess efnis, að loka
Faxaflóa í tilraunaskyni fyrir öllum botnvörpuveiðum. Tillaga þessi var
reist á þeirri staðreynd, að Faxaflói er þýðingarmikið uppeldissvæði fyrir
ýmsar tegundir nytjafiska svo sem ýsu, skarkola og lúðu. Brezku fiski-
skýrslurnar voru reyndar sjálfar ólygnastar um áhrif veiðanna á þessa