Andvari - 01.01.1998, Qupperneq 11
andvari
FRÁ RITSTJÓRA
9
flestum með vaxandi alvöru. Þessi kvilli lýsir sér í áberandi löngun til þess
að épater les bourgeois, eins og Frakkar kalla það, þ. e. a. s. ganga fram af
borgurunum - segja einhverja ósvífni, verulega krassandi, svo að heið-
virður lesandi sem á sér einskis ills von, rjúki upp í vonsku. . .“ (Tilvitnaðar
greinar Kristjáns standa í safninu í gróandanum, 1955).
Það er augljóst að Kristjáni Albertssyni, hinum fágaða borgara, hugnast
ekki þessi eiginleiki höfundarins, en samt viðurkennir hann að stríðnín sé
ein af sterkustu ástríðum skáldsnillingsins. An þeirrar ástríðu hefði Halldór
Laxness aldrei orðið sá aflvaki sem raun ber vitni. Með aldri dró úr áreitni
hans eins og eðlilegt er. Samt hélt hann alltaf áfram að skjóta örvum á lút-
ersku kirkjuna og í Grikklandsárinu, síðustu eiginlegu bók sinni, 1980, lýsir
hann íslensku þjóðlífi upp úr aldamótum: „Við höfðum verið „bænda-
menníng“, sem þýddi öreigabollok og bjálfagángur uppí sveit.“ Er ekki
þarna kominn hinn gamli og síungi stríðni höfundur sem hefur óskerta
löngun til að „segja einhverja ósvífni“ og gat ekki stillt sig um á efri árum
að strjúka „bændasinnunum“ lítið eitt andhæris, einu sinni enn?
Það eru að sumu leyti ill örlög skálds að vera hafinn á stall. Miklir höf-
undar kalla á gagnrýni, einungis í frjóum átökum við lesendur lifa verk
þeirra áfram. Kristján Karlsson vék að því í snjallri eftirmælagrein þar sem
hann setti reyndar fram þá nýstárlegu skoðun að Halldór sé fyrst og fremst
Ijóðskáld. Kristján sagði að hann hefði frá löndum sínum hlotið „feikn af
skilningslausu lofi“, erlendir ritdómarar stundum reynt að gera hann að
„einhverskonar skandinaviskum leiðindapostula eða einhverskonar forn-
sagnahöfundi. . . . í seinni tíð höfum við reynt að gera hann að þjóðlegu
minnismerki og eigum þess vegna á hættu að fara að sniðganga verk hans
með öllu.“ (Mbl. 14. febrúar 1998). Þetta er hættan við goðsagnasmíð um
verk afreksmanna.
Það var um Halldór Kiljan sagt að á sinni tíð hefði hann gert fleiri ís-
lendinga að kommúnistum en nokkur annar maður. Að vísu kallaði Hall-
dór sig aldrei kommúnista heldur vinstri sósíalista, þótt almennt hafi ekki
mikill greinarmunur verið á því gerður. En Halldór var um skeið rammur
stalínisti eins og Gerska ævintýrið (þ. e. frumútgáfan) ber glöggt vitni um.
Víst er það harmleikur í ævi hvers húmanista að hafa orðið til að veita slík-
um mannkynsböðli sem bóndanum í Kreml siðferðilegan stuðning, - þótt
raunar hefði hann sínar mannlegu hliðar, eins og sjá má dæmi um í þessu
Andvarahefti. Um stalínisma Halldórs og tengsl við Sovétríkin hafa menn
yfirleitt hliðrað sér hjá að fjalla af fullri hreinskilni. En heimildir sem þetta
varða hafa nýlega verið dregnar fram í Moskvu og auðvitað kemur að því
að sagnfræðingar taka efnið til rækilegrar rannsóknar. Sannleikann þarf að
leiða í ljós eftir því sem fært er, þótt beiskur geti reynst.