Andvari - 01.01.1998, Page 61
ANDVARI
AÐ YRKJA SIG ÚT ÚR BÓKMENNTASÖGUNNI
59
ráði og Jónasi sjálfdæmi um að færa mál og stíl til betri vegar, og einkum
stóð traust hans til Jónasar í þessum efnum alla tíð. Oft hafði Tómas þurft
að sæta strangri ritstjórn þeirra félaga, og lét sér það oftast vel líka, þó hon-
um hafi stundum þótt þeir fága málið um of á kostnað efnisins. En hér
hafði annað og meira gerst. „Pið hafið sleppt öllu sem sagt var um rímurn-
ar,“2 segir Tómas. Og hvað skyldi svo hafa staðið í hinum horfna kafla um
rímur á íslandi árið 1835? Jú, þar fór einn ritstjóra Fjölnis lofsainlegum
orðum um Sigurð Breiðfjörð.
Tómas gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir því hvað veldur og átelur félaga
sína fyrir heift í garð Sigurðar. Hann rekur fyrir þeim söguna af því að Sig-
urður hafi verið keyptur til að yrkja níð um Fjölni, væntanlega af sunn-
lensku höfðingjunum sem gáfu út tímaritið Sunnanpóstinn, og iðrist þess
nú. Því sé ómaklegt að ganga í skrokk á veslings Sigurði. Athyglisverðari er
samt rökstuðningur hans fyrir því að efnið hefði átt að birta. Hann segir, í
fyrsta lagi, að þetta sé bagalegt vegna þess að „Sunnanpósturinn hefir
hrært við sama efni og hefði mér þótt dágott, að publicum hefði séð, þó ei
væri nema á einu dæmi, að við ekki divergerum svo mjög í öllu.“3 Þetta eru
merkileg menningarpólitísk rök því þau sýna viðleitni Tómasar til þess að
skipa Fjölni við hlið þess tímarits sem Jónas og Konráð hefja miklar árásir
á, frá og með þessu hefti. Tómasi þykir mikilvægt að íslenskur almenningur
sjái að ritin eigi eitthvað sameiginlegt, hafi sameiginlega menningarlega
viðmiðun. Og þessi skurðpunktur íslenskrar menningar er enginn annar en
rímnaskáldið Sigurður Breiðfjörð sem hér stígur fram í svipuðu hlutverki
°g Halldór Laxness sníður honum löngu síðar í Heimsljósi: hann er tákn-
gervingur og samnefnari hins íslenska alþýðuskálds. Jónas Hallgrímsson
hafnar hins vegar þessari hugmynd Tómasar og strikar kafla hans um
Breiðfjörð út í heilu lagi. Þeir Konráð beita Tómas þöggun, eins og nú er
sagt. Jónas rökstyður ákvörðun sína síðar með rímnadómnum. Ritdómur-
inn um Breiðfjörð er þannig öðrum þræði svar Jónasar við skoðun Tóm-
asar. Hann hafnar þessari hefð sem sameiginlegri viðmiðun í bókmenntum
°g heimtar nýja. Tómas segir í bréfi sínu: „Ég þykist skilja að þið hafið ekki
viljað halda uppi lofi Sigurðar Breiðfjörðs, en það mátti þá draga dálítið úr
því,“4 og sú setning segir okkur alveg klárlega að Breiðfjörð hafi í hinum
útstrikaða kafla verið leiddur til öndvegis í íslenskum bókmenntum og tal-
lnn til hins besta, líkt og verið hafði í Sunnanpóstinum.
Auðvitað má velta vöngum yfir því hversu meðvituð taktík þetta er hjá
Tómasi. Hann segir í fyrrnefndu bréfi: „Mér sýnist líka Sigurður greyið,
ems og hver annar, eiga sitt,“5 sem vottar um réttlætiskennd prófastsins á
Breiðabólstað. Tómas meinar það sem hann segir og hvað bókmenntir
snertir stóð hann örugglega nær Sunnanpóstinum í skoðunum en Jónas og
Konráð. Hins vegar liggur undir niðri alveg augljóslega tímaritspólitík af