Andvari - 01.01.1998, Síða 84
82
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
ANDVARI
Rétt er vörður við að hressa,
veginn svo að rati þjóð,
og bindini í að binda þessa
björtu neista úr fornri glóð,
svipi að vekja upp aftur alda,
andans rekja spor á sjót,
og fyrir skyldum skuggsjá halda,
ef skyldu finnast ættarmót,
hvort lífs er enn í laukum safinn,
laufguð enn hin forna þöll,
eða blöðum bóka vafin
blóm eru sögu þornuð öll.35
Sá ljóðmælandi sem hér hefur orðið er að mörgu leyti ólíkur mælanda
ljóðsins um bergrisann og viðhorf hans til fornaldarinnar er gerólíkt. Hér
er ekki óbrúanlegt bil á milli sögu og samtíma, heldur er það hlutverk
skáldsins að tengja þarna á milli. Myndmálið sem Grímur beitir er
skemmtilega rammíslenskt, hlutverk skáldsins felst í að „hressa við vörður“
á „vegum sögunnar“ til þess að þjóðin geti ratað eftir þeim til uppruna síns.
Fornöld og samtími eru hér í lífrænum tengslum, og það er ekki síst athygl-
isvert að þessi tengsl eru letruð í landið sjálft. Þau myndgerast í vörðum og
anda klöppuðum á stein. Hlutverki þeirra sem vinna að því að viðhalda
sagnaarfinum er lýst í fjórum myndum í öðru og þriðja erindi. Skáldin eiga
að hressa við vörður, safna saman í „bindini“ neistum sem hrökkva frá
glóð fornaldarinnar, þau eiga að vekja upp svipi forfeðranna og halda uppi
spegli (skuggsjá) fyrir samtíðina svo hún geti þekkt fortíð sína og þar með
sjálfa sig.
Sé tekið mið af þessu kvæði og skrifum Gríms um fortíð norrænna
manna má því sjá að Grímur ætlaði fornöldinni hlutverk í samtíma sínum.
Með því að vekja upp svipi fortíðarinnar var ætlun hans að halda henni
uppi sem spegli fyrir nútíðina. í þeim spegli átti þjóðin að nema hið nor-
ræna eðli, sem að mati Gríms var forsenda þess að norrænar þjóðir, þar
með taldir Islendingar, gætu endurfæðst, í þjóðernislegu tilliti, sögulegu og
bókmenntalegu. Þetta var sú hugmyndafræði sem Grímur aðhylltist, allt frá
því að hann hóf að hugsa skipulega um norrænar bókmenntir um miðjan
fimmta áratug nítjándu aldar. Og í þessari hugmynd fólst erindi Gríms við
samtíð sína. Hann var ekki nátttröll. Þótt hann hafi ef til vill ekki notið lýð-
hylli voru hugmyndir hans giska samtímalegar. Þótt fornöldin hafi verið sú
fyrirmynd sem hann kaus sér var markmiðið alla tíð að miðla þeirri fornöld
til samtímans. Hitt er svo annað mál hversu vel Grími tókst að ná til sam-
tíma síns, en það verður ekki rætt á þessum blöðum.