Andvari - 01.01.1998, Side 110
108
KRISTJÁN B. JÓNASSON
ANDVARI
II. Gagnabanki náttúrunnar
Ef sveitamaðurinn les líf sitt af stráum, hvar las þá þéttbýlisbúinn sögu
sína? Þessari spurningu reyndi Indriði að svara strax í sinni fyrstu skáld-
sögu, Sjötíu og níu af stöðinni, og ef marka mátti dapurleg endalok að-
alsöguhetjunnar, Ragnars leigubílstjóra, var sá lestur fyrst og fremst mis-
lestur - Ragnar dó af því að hann kunni ekki að lesa úr táknum borgarinn-
ar. Hann kemur suður, fer að vinna sem leigubílstjóri og kemst í kynni við
nokkur af hugðarefnum menningarumræðu sjötta áratugarins, svo sem
veru bandaríska hersins hér á landi og myndun nýrrar borgarvitundar.
Hann fellur fyrir yfirstéttarpíunni Gógó, kemst að því að hún er í tygjum
við yfirmann í bandaríska herliðinu og ekur fullur norður yfir heiðar þar
sem hann missir stjórn á bílnum og deyr. Harmrænn endir sögunnar sem og
tregafullir kaflar Lands og sona, þar sem gamli bóndinn Ólafur fær slag og
deyr og sonurinn selur eigur hans og snýr baki við heimasveit og heima-
sætu til að byrja upp á nýtt fyrir sunnan, virtust svo sannarlega benda til
þess að ný samfélagsskipan eftirstríðsáranna væri grundvölluð á óheyrðu
miskunnarleysi, ef ekki hreinlega á morði. Allir þjóðvegir enduðu í borg-
inni og þaðan lá engin leið til baka. Líkt og Ameríkufari varð bóndasonur-
inn að brenna allar brýr að baki sér til að geta þrifist í borginni og gleyma
því sem hann hafði áður lært, sveitin var skotin í hausinn og husluð uppi á
mel eins og grái klárinn í Landi og sonum. Puttinn sem þrýsti á gikkinn var
hins vegar ekki sveitafingur. Þar var fjarstýrður andi borgarinnar að verki,
nútíminn sem knúði fram sögulegar sviptingar af gerræðislegri einurð sem
enginn andlegur stíflugarður gat spornað við. Sagan var í senn hræðileg og
óumflýjanleg. í stuttu máli tragísk. Ekkert virtist geta brúað andstæðu
borgar og sveitar nema dauðinn.
Því má hins vegar ekki gleyma að þótt andstæða borgar og sveitar væri
fyrirferðarmikil í frásagnarverkum bæði fyrir- og eftirstríðsára var hún fyrst
og fremst grunnlíkan sem notað var til að lýsa nútímavæðingu samfélags-
ins; hún var þegar nánar er að gætt ekki meginviðfangsefni íslenskra bók-
mennta fimmta og sjötta áratugarins. Andstæðan var aflvél til að knýja
áfram frásagnir sem fjölluðu um margskonar viðfangsefni sem þó virtust
ekki geta tekið á sig sannfærandi mynd í bókmenntasamhengi síns tíma
nema vafðar inn í umbúðir búferlaflutninganna. Það er til að mynda mikill
munur á því að túlka sagnabálk Ragnheiðar Jónsdóttur um Þóru í Hvammi
sem andstæðu borgar og sveitar, það er að segja sem spegilmynd af átökum
ólíkra samfélags- og vinnuhátta, eða sem frásögn af myndun og þróun
kvenlegrar sjálfsveru andspænis bakgrunni búsetubreytinganna, eins og
Dagný Kristjánsdóttir gerir í riti sínu um skáldsögur Ragnheiðar.7 Að sama