Andvari - 01.01.1998, Side 135
andvari
AF ÓSKRIFAÐRI LHIKLISTARSÖGU
133
Annars verða gallar ritsins að minni hyggju best dregnir fram með því að
beina athyglinni að afmörkuðum kafla sögunnar sjálfrar og kanna úr-
vinnslu heimilda og aðferðafræði í því sem skrifað er um hann. Til þess hef
ég valið það, sem Þórunn ritar um listrænt starf L.R. á árunum 1925 til 1927
og Kambansmálið svonefnda, sem kom upp á fyrri hluta árs 1927. Sem fyrr
segir ná fyrri frumrannsóknir ekki lengra en til u.þ.b. 1925. Þar hlýtur Þór-
unn því að taka upp þráðinn úr höndum fyrri fræðimanna og þar reynir því
fyrst fyrir alvöru á hana í glímunni við heimildirnar.
Eg mun svo í lokin fara nokkrum orðum um þátt Eggerts Þórs og draga
saman helstu niðurstöður mínar.
Hvers konar leikstjóri var Indriði Waage?
Um miðjan þriðja áratuginn voru flestir aðalfrumherjar L.R., sem höfðu
borið starfið uppi frá stofnun 1897, horfnir af sjónarsviðinu. Stefanía Guð-
mundsdóttir lést í ársbyrjun 1926 og Guðrún Indriðadóttir stóð aðeins á
sviði í tæp fjögur ár eftir það. Árni Eiríksson féll frá árið 1917 og Jens B.
Waage hætti að leika 1920. Þessir fjórir leikarar voru helstu burðarásar
L.R., „stjörnur“ þess, ef svo má að orði kveða. Af stofnfélögunum, sem
leikið höfðu með frá upphafi, var Friðfinnur Guðjónsson þá einn eftir.
Sagt er, að maður komi manns í stað, og auðvitað steig fram ný kynslóð,
sem hélt starfinu áfram. Fleira breyttist þó en leikflokkurinn sem slíkur.
Ungu leikararnir höfðu ekki sömu listrænu viðmiðanir og hinir eldri;
kannski skildu þeir ekki heldur allir jafnvel, hvers hugsjónin um fullgilt
þjóðarleikhús á atvinnugrundvelli krafðist af þeim sjálfum. Hið gamla
„stjörnu-leikhús" var úr sögunni og með því hin innblásnu andartök sem
höfðu gefið því líf og skyggt á alla vankanta, eins og viðvaningslegan leik í
flestum minni hlutverkum og jafnvel oft og einatt hinum stærri líka. Halla
Guðrúnar Indriðadóttur óð ekki lengur að fossbrúninni og henti barninu í
gljúfrið, eins og hún hafði gert með nánast reglubundnu millibili frá
frumsýningu Fjalla-Eyvindar árið 1911, og Úlrikka Stefaníu Guðmunds-
dóttur staulaðist ekki lengur út úr Kinnarhvolnum, skorpin af elli og
ágirnd. En hvað kom í staðinn? Því er ekki auðsvarað, þó að eitt sé hafið
yfír vafa: langir tímar liðu, jafnvel mörg ár, áður en leikendur náðu að
heilla áhorfendur í Iðnó með áþekkum hætti og hinar gömlu „stjörnur“
gerðu, þegar best tókst til. E.t.v. var það í revíunum, sem leikendur og
áhorfendur náðu best saman á komandi árum.
Um miðjan þriðja áratuginn kom nýr leikstjóri - eða leiðbeinandi eins
°g leikstjórarnir voru nefndir lengi framan af - til starfa með Leikfélaginu.