Uppeldi og menntun - 01.01.2000, Page 110
TVÍTYNGD LEIKSKÓLABÖRN
ekki þurfa að vinna erfiðisvinnu, finnst hún vera að eyða tímanum til einskis þar
sem hún sé hvorki alin upp né menntuð til þess. Li hyggst fara hér í Háskólann og
ljúka BA prófi í íslensku og vonast til þess að það opni henni dyr. Marie sagði
svipaða sögu. Hún er frönskukennari en hefur ekki tekist að fá vinnu við kennslu
nema að mjög litlu leyti. Hún tók nærri sér að geta ekki hjálpað drengjunum sínum
við heimanámið og var hrædd um að þeir yrðu eftirbátar annarra þar eð þeir fengju
ekki nægan stuðning í skólanum.
Þegar Li kom hingað með manni sínum var hún barnshafandi. Það var ekki
talið sjálfsagt að hún nyti sömu kjara á Fæðingardeild Landspítalans og íslenskar
mæður, heldur farið fram á að hún greiddi spítaladvölina fullu verði. Það skipti
ekki máli þótt faðir barnsins væri íslenskur og hefði greitt skatta og skyldur til sam-
félagsins.
Mæður Kristínar, Lárusar og Perlu höfðu allar fundið fyrir því að litið væri
niður á þær og stundum höfðu þær orðið fyrir áreitni. Marie talaði um að hún hefði
fundið fyrir því að vera álitin heimsk. Vegna þess að hún talar ekki kórrétta
íslensku heldur fólk að hún hugsi skakkt. Li talaði um að hún hefði fundið fyrir
lítilsvirðingu hjá afgreiðslufólki í verslunum og eins væri algengt að fólk héldi að
hún væri tælensk og hefði verið keypt til landsins. Það þótti Li mjög niðurlægjandi.
Ómar sagði að þegar hann og Nan kæmu á dansstaði yrði „náttúrulega alltaf vesen."
Karlmenn áreittu Nan iðulega þótt hann væri viðstaddur og stundum lenti hann í
átökum þess vegna.
Starfsfólk leikskólanna kvaðst ekki hafa orðið vart við fordóma meðal barnanna
gagnvart börnum af erlendum uppruna. Leikur tvítyngdu barnanna og alíslensku
barnanna gengur upp og ofan eins og hjá öllum öðrum börnum en starfsfólkið telur
að persónueigindir barnanna ráði mestu um það hvernig barninu gengur í leik og
samskiptum en ekki þjóðerni eða kynþáttur.
LOKAORÐ
Hvernig skyldi þessum litlu íslendingum, Perlu, Kristínu og Lárusi, farnast í fram-
tíðinni? Huga þarf að málefnum innflytjenda af alvöru til að þeir eigi sömu mögu-
leika og alíslenskir jafnaldrar þeirra. Þeir sem best þekkja til segja að það vanti
heildstæða stefnu yfirvalda um aðlögun nýrra íbúa hérlendis (Kristín Njálsdóttir,
viðtal í Ríkisútvarpi 1. apríl 2000). Fyrst og fremst er nauðsynlegt að hyggja að
skóla- og menntunarmálum en einnig að ýmsum réttindamálum nýrra íbúa. Þróun
í fjölmenningarsamfélag er hér seinna á ferðinni en hjá nágrannaþjóðunum. Þótt
margt hafi víða vel tekist hefur einnig ýmislegt farið úrskeiðis og flokkadrættir og
kynþáttafordómar hafa grafið um sig. íslendingar hafa tækifæri til að læra af
reynslu annarra í þessum efnum.
Móðurmáli og menningu barna af erlendum uppruna hefur lítið verið sinnt í
skólum hérlendis. í Samningi Sameinuöu pjóðanna um réttindi barnsins,7 sem ísland
hefur staðfest, stendur að börn eigi rétt á að halda auðkennum sínum og njóta eigin
7 Sjá m.a. 1992:8.grv 29.gr. og 30. gr.
108