Hugur - 01.01.1994, Page 64
62
Jóhanti Páll Ámason
HUGUR
Það er til önnur túlkun og vörn fyrir lýðræði sem er ekki eins
einkennandi fyrir stjórnmálahugsun samtímans, en sem nokkrar vonir
má binda við að mínu viti: Meginregla lýðræðislegra stofnana er,
samkvæmt þessari túlkun, að skýra innri árekstra og togstreitu og að
kveða upp úr um misvísandi gildi og sjónarhorn sem eru jafn mikil-
væg fyrir sjálfsskilning stofnana og fólks. Nákvæm útlistun er ógerleg
í stuttum eftirmála, en eitt klassískt dæmi og annað úr samtímanum
gætu skýrt nokkur atriði. Klassíska dæmið er velþekkt — en ekki
alltaf jafn vel skilið — umræða Tocquevilles um vandmeðfarin tengsl
jöfnuðar og frelsis: þau standa fyrir gildisafstöðu sem er gjörólík og
kunna að stangast á, og saga nútíma lýðræðis er framar öðru mótuð af
gagnverkun þeirra. Löngunin til að umbreyta togstreitunni milli þeirra
í stuðning — og því til að láta frelsi og jöfnuð mætast — er eins
mikilvæg fyrir nútíma lýðræði og boðorðið um málamiðlun milli
þeirra tveggja.
Samtímadæmið sem ég tek er úr lýðræðisgreining Alain Touraines
í nýjustu bók hans.16 Hann lítur á lýðræði sem síbreytilega og sífellt
erfiða samþættingu þriggja lögmála: Endanlegt vald almennings (þ.e.
hugmyndin um stjórnvald sem er upprunnið hjá og notað af félags-
verum), mannréttindi (þau takmörk sem stjórnvaldi eru sett á grund-
velli þátta sem standa utan sviðs stjórnmálanna), og fulltrúaeinkenni
stjórnstofnana (sem byggir á getu félagsvera til að skýra hagsmuni
sína og koma þeim til skila). Of mikil áhersla á einn þátt á kostnað
annars getur ekki annað en leitt af sér fátæklegt eða afbakað lýðræði.
Mögulegt er að mótmæla þessu og halda því fram að tengja megi
þessi þrjú atriði við sameiginlegan grunn: hugmyndin um sjálfræði í
víðum skilningi sem felur í sér tengsl þjóðfélags við stofnanir sínar
líkt og tengsl einstaklinga.við hið sameiginlega vald, samfélagið og
ríkið. En jafnvel þótt við föllumst á þessa mynd af sjálfræði, þá er það
eftir sem áður rétt að einungis er hægt að leiða af henni reglur og boð
innan tiltekinna ramma (einstaklings og samfélags, þjóðfélags og
sviðs stjórnmálanna). Sérhver þeirra felur í sér sérstök vandamál og
það er engin fyrirfram gefin leið til að samræma þau. Að þessu leyti er
áhersla Touraines á Qölþætta formgerð lýðræðisins réttlætanleg.
Ágúst Hjörtur Ingþórsson þýddi
16 Alain Touraine, Critique de la modernité (París, 1992).