Hugur - 01.01.2002, Side 20
Hugur
Logi Gunnarsson
svarað með því að við ættum ekki að gera það vegna þess að það væri
særandi fyrir viðkomandi persónu. En þetta er augljóslega ekki nægilegt
svar. Það er ekki nóg að réttlæta beitingu á inntakshugtaki eins og sær-
andi í ákveðnu tilfellv, það verður líka að réttlæta það að nota hugtakið
yfir höfuð.
Þetta má skýra með samanburðardæmi. Er það synd að myrða annan
mann? Jafnvel fyrir þá sem eru trúlausir, er það vissulega siðferðilega
fordæmanlegt að fremja morð. En trúleysingjar geta ekki leyft sér að
nota hugtakið synd. Synd er trúarlegt hugtak. Með því að nota hugtak-
ið væru þeir um leið að skuldbinda sig til að fallast á alls konar trúar-
legar forsendur sem þeir hafna sem trúleysingjar. Til þess að geta
gagnrýnt athöfn einhvers með réttu sem synd, er því ekki nóg að athafn-
ir hans falli undir þetta hugtak, það verður líka að vera góð ástæða til
að nota hugtakið synd yfir höfuð.
En dæmið um synd var einungis samanburðardæmi. Sama gildir um
hugtakið særandi og öll önnur hugtök. Tilvísun til hugtaksins særandi
nægir ekki til að sýna að það sé skynsamlegt að gera eitthvað eða láta
það ógert, nema notkunin á hugtakinu sjálfu geti verið réttlætt. En hver
gæti nú verið inntaksréttlætingin á því að nota hugtakið særandi? Ein
tegund af réttlætingu felst í því að vísa til annarra hugtaka sem tengj-
ast þessu hugtaki. Athafnir sem eru særandi eru oft líka auðmýkjandi,
móðgandi, niðurlægjandi, ruddalegar, dónalegar eða ókurteislegar. Við
gætum því réttlætt gagnrýni okkar á athafnir fyrir það að vera særandi
með því að segja til dæmis að þessar athafnir séu oft einnig auðmýkjandi
og að segja að við höfum þegar ástæðu til að gagnrýna athafnir fyrir það
að vera auðmýkjandi: Særandi athafnir eru gagnrýniverðar vegna þess
að særandi athafnir eru oft einnig auðmýkjandi. Ef hugtökin móðgandi,
niðurlægjandi o.s. frv. tengjast særandi með svipuðum hætti, höfum við
þar með býsna góða ástæðu til að gagnrýna athafnir fyrir það að vera
særandi. Þessa tegund af réttlætingu mætti kalla „tengslaréttlætingu“:
Við höfum góða ástæðu til að nota hugtakið særandi til að gagnrýna at-
hafnir vegna tengsla þess við önnur hugtök sem við höfum þegar ástæðu
til að nota til að gagnrýna athafnir.
Nú er það ljóst að tengslaréttlæting getur ekki verið fullnægjandi rétt-
læting á neinu hugtaki. Jafnvel þótt hugtakið særandi sé tengt þeim
hugtökum sem ég nefndi, er það ekki sama hugtakið. Það er því vel hugs-
anlegt að til séu athafnir sem eru særandi án þess að vera auðmýkjandi,
niðurlægjandi o.s.frv. Til þess að réttlæta að nota hugtakið særandi en
ekki einungis öll hin hugtökin, verður að sýna fram á að góð ástæða sé
til að gagnrýna athafnirnar fyrir að vera særandi einnig í þessum tilfell-
um. Að mínum dómi er réttlætingin í þessum tilfellum engin önnur en
18