Hugur - 01.01.2002, Blaðsíða 15
Er skynsamlegt að vera dyggur, trúr og tryggur?
Hugur
Snúum okkur þá að Habermas. Habermas vill líka byggja röksemdir
sínar á forsendum sem siðleysinginn getur fallist á. Hann hafnar hins
vegar þeirri huglægu hugmynd Gauthiers og annarra heimspekinga sem
fylgja Hobbes að máli, að skynsemin geti ekki sagt okkur neitt um það
hvaða markmið við eigum að hafa. Réttlæting hans á siðareglum er því
allt önnur en Gauthiers. Ég verð að einfalda kenningu Habermas hér
mikið, en ég vil einungis koma meginhugmyndinni til skila.
Höfuðatriðið í rökfærslu Habermas er hugmynd um skynsamlega sam-
ræðu. Þetta er samræða sem siðleysinginn er líka tilbúinn til að taka
þátt í. Þess vegna er þetta ekki umræða um það hvaða siðareglur við eig-
um að fallast á, því að siðleysinginn sér enga ástæðu til að samþykkja
neinar siðareglur. Umræðan snýst um það hvort siðareglur beri að sam-
þykkja yfir höfuð. Nú telur Habermas að sérhver skynsamleg samræða
verði að lúta ákveðnum formlegum reglum; annars getur hún ekki talist
skynsamleg samræða. Siðleysinginn er tilbúinn til að taka þátt í skyn-
samlegri samræðu og til að lúta þeim reglum sem eru nauðsynlegar til
að samræðan geti talist skynsamleg. Hann telur að þetta skuldbindi
hann ekki til að fallast á neinar siðareglur. Habermas telur að hér
skjátlist siðleysingjanum. Með rökfærslu sinni vill Habermas sýna að
með því að fallast á að taka þátt í skynsamlegri samræðu hafi siðleys-
inginn skuldbundið sig til að virða ákveðnar siðareglur. Samkvæmt Ha-
bermas er það t.d. ósamrýmanlegt skynsamlegri samræðu að pynta og
limlesta þá sem maður er að ræða við. Skynsamleg samræða skuldbindi
siðleysingjann því til að gefa siðleysi sitt upp á bátinn að minnsta kosti
að hluta til.15
Ég tel að rökfærslur Habermas og Gauthier séu ógildar: Siðareglurnar
leiðir ekki af forsiðlegu forsendunum. Fyrir þessu færi ég rök í bókinni.16
En eins og ég sagði í upphafi fyrirlestrarins, er þetta ekki aðalmarkmið
bókarinnar. Aðalmarkmiðið er að sýna að það feli í sér afskræmingu
bæði á siðferðinu og skynseminni að gera ráð fyrir að siðferðið þarfnist
forsiðferðilegrar réttlætingar. í bókinni færi ég rök fyrir þessu bæði í til-
felli Habermas og Gauthiers.17 Hér íjalla ég einungis um Habermas.
15 Sjá bls. 14-20, 99-108.
16 I MMS eru reyndar einungis dregnar í efa rökfærslur Gauthiers og Habermas
fyrir sumum af þeim siðferðisreglum sem þær færa rök fyrir; sjá kafla 7 og 9.
17 Sjá bls. 47, 138-145, 158-159, 162-166, 171-172, 186-191, 197-212, 216-218.
13