Búnaðarrit - 01.01.1933, Page 372
362
BÚNAÐARRIT
eins og kunnugt er, þá eru skinn þau, er falla til af
húsdýrum hér á landi i hraklegu verði á útlendum
markaði. Og ekkert bendir til þess, að verðlag á þeim
breytist til batnaðar. Enda er og varla von til þess,
meðan verkun skinna er hér eins miðaldaleg og raun
ber vitni.
Það hefir verið bent á það oftsinnis, í ræðu og riti,
að sjálfsagt væri að gera íslenzk skinn að betri vöru
og koma á fót skinnavöruiðnaði. Lítilsháttar tilraunir
hafa verið gerðar með að verka og súta skinn, á ýmsum
stöðum hér á landi, og gefist misjafnlega, eins og gengur.
Nú sem stendur má benda á gærurotunina hjá Kaup-
félagi Eyfirðinga á Akureyri og Garðari Gíslasyni í
Reykjavík. Bendir reynsla þessara verzlunarhúsa til, að
meira fáist í aðra hönd með því að hálfverka (»rota«)
skinnin til útflutnings. Til þess mun ekki þurfa mikil
áhöld, enda sjálfsagt fyrir öll stærri sláturhús að útvega
sér þau. Ennfremur eru 3 smáar sútunariðjur hér í
Reykjavík, sem aðallega starfa að hvítsútun gæruskinna.
En hér er ekki nema hálfsögð sagan. Fullkomin sútun
krefst dýrra og margbrotinna áhalda og véla, ekki sízt
þá sútun dýrmætari skinna kæmi til greina.
Það, sem er mest aðkallandi í þessu máli, er að rann-
sökuð séu skilyrði fyrir sútunariðju og einnig nothæfi
íslenzkra skinna til iðnaðar. Ganga má að því vísu, að
ekki verði hjá komist að flytja nokkuð af skinnunum út,
en ófært er að láta þau að öllu óunnin, eins og nú á
sér stað.
Stofnkostnað sútunarverksmiðjunnar yrði sennilega að
fá að láni erlendis, þá yfirlýst væri að tiltækilegt mundi
að koma henni á fót, og er þá heimild í fjárlögum Al-
þingis nauðsynleg.
Þá er tollvernd sjálfsögð, til styrktar þessum iðnaði,
sem og öðrum í landi hér. Atvinna mundi glæðast, því
sútunariðju mætti reka á þeim tíma árs, sem annars
væri lítið að starfa.