Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Blaðsíða 9
Uppe ld i og menn tun K R I S T J Á N K R I S T J Á N S S O N
14. árgangur 1 . he f t i , 2005
Er kennsla praxis?
Nokkrar aristótelískar efasemdir um ný-aristótelisma
í menntamálum
Viss tegund ný-aristótelisma sem tengir rök og íhugun í menntun við hið gríska hugtak
fronēsis (siðvit eða siðferðilega glöggskyggni) og lýsir kennslu sem praxis (gjörð af ákveðinni
tegund) hefur rutt sér mjög til rúms í menntaumræðu samtímans og mun ugglaust vekja
áhuga kennara. Höfundur greinir fjóra meginþætti þessa nýja fronēsis-praxis viðhorfs: þá
skoðun að a) þekkingar- og aðferðafræði Aristótelesar feli í sér að hagnýt heimspeki komist af
án hefðbundins aðferðar- eða kenningargrunns; b) „framleiðsla“ undir handarjaðri technê
(verksvits, kunnáttu, tækni) sé að fullu útreiknanlegt ferli, í andstöðu við „gjörð“, þar á meðal
kennslu, undir handarjaðri fronēsis; c) fronēsis beri að túlka út frá siðferðilegri stakhyggju
(moral particularism) er bjóði öllum algildum reglum birginn; og d) kennslustörf í skólum
séu réttast skilin sem praxis, með ásjá fronēsis. Höfundur leiðir rök að því að enginn þessara
þátta eigi sér fullnægjandi stoð í ritum Aristótelesar, né standist nákvæma skoðun. Sú hug-
mynd að kennsla sé praxis í skilningi ný-aristótelismans hjálpar kennurum ekki að hugsa um
og skilja starf sitt.
NÝ-ARISTÓTELISMI Í MENNTUN
Síðasta aldarfjórðunginn eða svo hefur aristótelismi gengið í mikla endurnýjun líf-
daganna í umræðu um menntun og kennslu. Svo rammt hefur kveðið að endurkomu
aristótelískra hugmynda að ekki aðeins ein tegund ný-aristótelisma hefur skotið upp
kollinum heldur að minnsta kosti þrjú mismunandi afbrigði.
Hið fyrsta mætti nefna eþos-viðhorfið, en það er runnið undan rifjum svokallaðrar
samfélagssinnaðrar siðfræði og stjórnspeki. Samkvæmt því ber menntahugsuðum að
leggja rækt við hið hefðgróna, rótfasta samfélag og siðvenjur/staðblæ (eþos) þess, þar
á meðal staðblæ skólans sem stofnunar. Þótt eþos-viðhorfið eigi sér vissulega nokkra
stoð í ritum Aristótelesar, einkum Stjórnspeki hans, þá hafa talsmenn þess tekið
traustataki hugmyndir ýmissa annarra hugsuða, svo sem Gadamers um réttlætingu
hefðarhelgaðra fordóma og Hegels um hlutgervingu aldarandans, og hneppt í eitt
fang. Í Þýskalandi, þar sem eþos-viðhorfið hefur mest verið rökrætt, er þessum tals-
9