Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Page 136
Mynd 2. Línan í miðjunni sýnir fjölda nemenda í háskólum á Íslandi á árunum 1977–2004. Þar eru
engar sérstakar sveiflur, nema ef til vill aðeins uppsveifla árið 1991. Neðsta línan sýnir fjölda nem-
enda við háskólanám erlendis. Þar verður sýnilegur samdráttur upp úr 1990, sérstaklega ef miðað er
við þann fjölda sem sækir nám á háskólastigi á þessum árum. Efsta línan er samanlagður fjöldi
þessara tveggja lína og er grunnur þeirra útreikninga sem eru sýndir á mynd 1.
Frekari stoðum er rennt undir reglufestuna með því að bera saman þróunina á Norð-
urlöndunum. Þetta er að vísu vandasamt vegna þess að það er misjafnt hvernig nám
er flokkað. Hér er miðað við það sem flokkað er nám í háskólum og ekki aðeins mið-
að við þrönga skilgreiningu á háskóla. Mynd 3 sýnir aðeins Svíþjóð fyrri hluta aldar-
innar, en línurnar yrðu nánast þær sömu fyrir allar þjóðirnar á þessum kvarða. Aðal-
atriðið er að í öllum löndunum tekur háskólamenntunin við sér um svipað leyti og
þessar þjóðir stefna allar í sömu átt, það er í stóraukna háskólamenntun og með
ámóta hraða. Það er margvíslegur munur á kerfunum sem gæti verið áhugavert að
skoða, en hér dregin athygli að því hve svipað þetta er, þrátt fyrir allan kerfismun.
Mynd 3 – Háskólanemendur á Norðurlöndunum miðað við meðalstærð aldurshópa
20–24 ára
Mynd 3. Myndin sýnir fjölda háskólastúdenta á Norðurlöndum. Línurnar sýna fjölda sem hlutfall af
árgöngunum 20–24 ára. Myndinni er ekki ætlað að sýna innbyrðis samanburð á milli landa sem kann
að vera umdeilanlegur vegna ólíkra skilgreininga á háskólum, heldur á hún að sýna að almenn þróun
er keimlík í öllum löndunum fimm. Myndin er byggð á upplýsingum frá Hagstofum Norðurland-
anna.
Hér er reynt að beina sjónum að skóginum í stað trjánna, en mér hefur stundum virst
að fólk eigi til að gleyma sér í aukaatriðunum þegar fjallað er um háskóla. Þetta
kemur meðal annars fram þegar einblínt er á það hve margir háskólar séu á Íslandi
eða hve margar háskóladeildirnar eru, en ég bendi á að einblíni fólk á þessi atriði
missir það af hinum grófu línum í þróuninni. Þær eru ekki síður áhugaverðar og
segja sögu sem verður ekki sögð með öðru móti.
V I Ð H O R F
136