Andvari - 01.01.2011, Page 12
10
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
Hefur líf og stefna Jóns Sigurðssonar verið „rangfært sitt á hvað“ á þeim
rúmum hundrað og þrjátíu árum sem liðin eru frá dauða hans? Varla hefur
svo verið gert af ráðnum hug. Líklega er sönnu næst að hver ný kynslóð
skoðar sögu sína og þar með forustumenn þjóðlífsins á hverri tíð á sinn hátt,
les það úr fortíðinni sem henni hentar, hampar einu, lætur annað liggja í
láginni. Þá getur auðvitað orðið álitamál hvað sé eiginleg „rangfærsla“. En
það hlýtur að vera verkefni fræðimanna hverrar kynslóðar að bregða upp fyrir
þjóðinni þeirri mynd af Jóni forseta sem þeir vita sannasta og réttasta. Til
þess að svo verði gert þurfa sagnfræðingar, stjórnskipunarfræðingar, stjórn-
mála- og hagfræðingar og aðrir menntamenn auðvitað að kanna vandlega
framlag forsetans til hugmyndasögu íslendinga, röksemdir hans, skoðanir og
málflutning. Það er ófært að þjóðin vaði í villu og svíma um raunverulegan
boðskap síns frægasta leiðtoga. Hvort var hann til dæmis fremur stjórnlyndur
maður sem einkum horfði á formlega stöðu landsins innan danska ríkisins,
maður sem leit umfram allt á praktísk úrlausnarefni í atvinnumálum eða það
sem nú er kallað frjálshyggjumaður, boðberi óhefts viðskiptafrelsis? Og hvert
var framlag hans til mennta- og skólamála sem Háskóli íslands tengir sig við,
stofnsettur á hundrað ára afmælisdegi forsetans?
Það væri vel að tveggja alda afmælishátíð Jóns Sigurðssonar yrði til að
efla áhuga á lífsstarfi hans og skerpa skilning okkar á því sem þessi þjóðhetja
hafði fram að færa. Hver er raunverulegur sess hans í sögu þjóðarinnar þegar
reynt er að skyggnast að baki goðsögunnar? Hátíðahöld í minningu foringja
og merkismanna eru góðra gjalda verð. Það vottar menningarbrag að sýna
þeim maklega virðingu sem ruddu brautina fyrir eftirkomendur. En virðingin
ein dugar ekki til að gæða þá lífi í vitund þjóðarinnar. Þekking og skilningur
á ævistarfi slíkra manna er enn betri.
Gunnar Stefánsson
i