Andvari - 01.01.2011, Qupperneq 24
22
GUÐJÓN FRIÐRIKSSON
ANDVARI
fremstur í flokki. Flestir konungkjörnu þingmennirnir og einn kjördæma-
kjörinn fylgdu hins vegar Trampe að málum og sóttu ekki þessa fundi. Þegar
ljóst var að ekki gekk saman með fylkingum á þjóðfundinum tók Trampe
stiftamtmaður til bragðs að slíta honum fyrirvaralaust. Við þetta varð mikil
háreisti meðal þingmanna. Þeir steyttu hnefa og hrópuðu ókvæðisorð. Jón
Sigurðsson, leiðtogi meirihluta þingmanna, tók til máls og sagðist mótmæla
þessari aðferð í nafni konungs og þjóðarinnar og áskilja sér rétt til að kæra
þessa lögleysu. Við þessi orð strunsuðu þeir Trampe og Páll Melsteð, forseti
þjóðfundarins, út úr salnum en flestir fulltrúarnir stóðu á fætur og hrópuðu í
einu hljóði: „Vér mótmælum allir.“
Eftir að þjóðfundurinn fór út um þúfur hertu dönsk stjórnvöld tökin á
Islendingum með ýmsum aðgerðum, meðal annars brottvikningu emb-
ættismanna úr starfi, og dregið var úr fjárstuðningi við vísindastörf Jóns í
Kaupmannahöfn. Sá mikli stjórnmálaáhugi sem vaknað hafði með íslend-
ingum, eftir að einveldið var afnumið, dofnaði á næstu árum aftur til muna.
En atburðirnir á þjóðfundinum voru að mörgu leyti hápunkturinn á ferli Jóns
Sigurðssonar og hafa þeir meitlað sig í hug Islendinga.
Þó að fátt nýtt gerðist náðist mikill áfangi árið 1855 þegar íslendingar
fengu fullt frelsi til að versla við allar þjóðir. Það var ekki síst baráttu Jóns
Sigurðssonar að þakka en hann reri óspart í dönskum þingmönnum að koma
þessu fram og má kalla þetta fyrsta verulega árangurinn af stjórnmálabaráttu
hans. Jón vildi opna ísland sem mest fyrir öðrum þjóðum, stuðla að nýjum
verslunarsamböndum við Breta og Norðmenn og var hlynntur því að Frakkar
fengju að reisa stóra fiskverkunarstöð í Dýrafirði 1856. Það síðastnefnda átti
þó hvorki ekki upp á pallborðið hjá löndum hans né dönskum stjórvöldum.
Þó að Jón Sigurðsson sé þekktastur nú til dags fyrir stjórnmálabaráttu sína
voru þó vísindastörfin, einkum við handritarannsóknir og útgáfa, lifibrauð
hans alla tíð og í þeim var hann afar vandvirkur, mikilvirkur og nútímalegur
í vinnubrögðum enda virtur vísindamaður í dönskum fræðaheimi. Hann var
annar tveggja styrkþega Árnasafns frá 1835 og ritari Árnanefndar, sem sá um
safnið, frá 1848. Jón starfaði einnig mikið fyrir hið auðuga Konunglega nor-
ræna fornfræðafélag og var skjalavörður þess í mörg ár. Þá vann hann árum
saman fyrir Danska vísindafélagið að útgáfu danskra frumheimilda. Allt frá
fyrstu stúdentsárum sínum í Kaupmannahöfn tók Jón Sigurðsson ennfremur
að sér verkefni fyrir Hafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags. Hann var
kosinn ritari félagsins árið 1841 og frá 1851 var hann forseti þess og gegndi
því embætti til dauðadags. Landar hans í Kaupmannahöfn kölluðu hann því
„forseta“ og er þaðan forsetanafnið komið. Bókmenntafélagið gekkst fyrir
viðamikilli útgáfustarfsemi og var Jón potturinn og pannan í henni.
Fyrir utan margháttaðar vísindalegar útgáfur á íslenskum fornritum, svo
sem Snorra-Eddu, íslendingasögum og fornkvæðum, og heildarútgáfum á