Andvari - 01.01.2011, Page 104
102
BIRGIR HERMANNSSON
ANDVARI
bók danska fræðimannsins J. E. Larsens um stöðu íslands í ríkinu. Pólitískar
deilur eru hér háðar á leikvelli akademískrar umfjöllunar þar sem gömul
skjöl og heimildir eru reiddar fram líkt og í réttarsal máli Jóns til stuðnings.
Tungumál Jóns hefur því fræðilegt yfirbragð, kennivald fræðimannsins og
málafylgja stjórnmálamannsins fara hér saman.
III
Frá því að konungur afsalaði sér einveldi og fram að þjóðfundinum 1851 voru
allnokkur fundahöld og umræður um hina nýju stöðu sem upp var komin.
Flest var það í anda Jóns Sigurðsonar og ljóst að íslendingar vildu frá konungi
sama rétt og hann veitti öðrum þegnum sínum. Þetta var almennt rökstutt
með vísun í fjarlægð og sérstöðu Islands og fornan rétt landsmanna. Sumarið
1849 prentaði Þjóðólfur „Samþykktir íslendinga við Hákon Hákonarson
Noregskonung, árið 1262“ sem innlegg í umræðu landsmanna um framtíð
sína. „Það er ekki ætlun vor“ segir í umfjöllun um samninginn, „að menn
skuli beinlínis leggja hann til grundvallar fyrir sambandi voru við Danmörku
framvegis, en hann getur þó leiðbeint hugsunum manna í ýmsu.“18 Prentun
samþykktarinnar er þó tímanna tákn: gamlir sáttmálar verða æ mikilvægari
í vopnabúri sjálfstæðisbaráttunnar 0£ umfjöllun um þá verður að föstum lið í
umræðum um sambandið við Dani. I „ávarpi til íslendinga frá hinum almenna
fundi að Öxará“ sem haldinn var í ágúst 1850 kemur fram að „byggja þurfi
stjórnarreglur íslands á þessu:“
a. Eptir hinum forna sáttmála milli feðra vorra og Noregskonungs er ísland þjóð sjer
í lagi með fullu þjóðerni og þjóðréttinduin og frjálst sambandsland Danmerkur,
en ekki partur úr henni, hvorki nýlenda nje unnið með herskildi.
b. ísland er bæði of fjarlægt og of ólíkt Danmörku til þess, að geta átt þjóðstjórn
saman við hana.19
Líkt og hjá Jóni blandast hér saman söguleg og hagnýt rök. ísland er frjálst
sambandsland, en ekki nýlenda né innlimað í ríkið með hervaldi. Rök-
semdafærslan er sérstök: samkvœmt fornum sáttmála er ísland sérstök þjóð
og frjálst sambandsland. Með því að nota sáttmálann til að skilgreina ísland
með þessum hætti er lagður grundvöllur að réttarstöðu eftir að einveldi er
afnumið.
í nefndaráliti meirihlutans á þjóðfundinum 1851 koma sjónarmið Jóns mjög
skýrt fram. Tónninn er sleginn með því að staðhæfa að „þjóðlíf [íslendinga]
sé mest í sögunni, sé sögulíf.“20 Allur rökstuðningur fyrir réttindum landsins
byggist því á sögulegri greiningu, einungis þannig fáist öruggur grundvöllur
til að standa á: