Andvari - 01.01.2011, Page 148
146
JÓN KARL HELGASON
ANDVARI
Þar vill hann að með tímanum komi í röð brjóstmyndir merkra bókmentamanna [svo]
íslenskra, á hjer um bil tveggja álna háum fótstöplum, og væri rúm fyrir 6 myndir
hvoru megin dyra. Síðan hugsar hann sjer tvær stórar myndir sína til hvorrar hliðar,
og standi þær lítið eitt út frá hornum hússins og nær götunni. Þessi hugmynd er góð.
Mætti þá hugsa sjer öðru megin líkneski Jónasar Hallgrímssonar, en hinumegin Jóns
Sigurðssonar. Brjóstmynd Kristjáns, sem hjer hefur verið talað um, er meira en í
náttúrlegri stærð. Alíka stór eirmynd er til af Bjarna Thorarensen, geymd í þinghúsinu,
og ætti hún líka að setjast framan við bókasafnið.17
Þessi umræða um stytturnar tvær og „peðin“ tólf afhjúpar vel hvernig opin-
berar byggingar og líkneski framan við þær eiga gjarnan í innbyrðis sam-
ræðum. Tilteknir einstaklingar eru gerðir að holdgervingum viðkomandi
starfsemi eða útvörðum þeirrar gilda sem stofnuninni er ætlað að varðveita.
Hugmynd séra Eiríks um stytturnar framan við Safnahúsið varð hins vegar
aldrei að veruleika. Samskotsnefndin um Jónasarstyttuna fór að vísu fram á
að hún fengi að standa öðrum megin við inngang hússins og að gert yrði ráð
fyrir líkneskinu af Jóni Sigurðssyni hinum megin en þar sem byggingin var
enn í smíðum árið 1907 var listaskáldinu til bráðabrigða komið fyrir á gras-
bala við Lækjargötu, sunnan Bankastrætis, framan við landlæknisbústaðinn.18
Og þar átti Jónas eftir að standa kyrr í nærri fjóra áratugi.
Skriður komst á ný á söfnun vegna líkneskisins af Jóni Sigurðssyni síðla
árs 1910.19 Akveðið var að nýta þá fjármuni sem safnast höfðu á níunda
áratugnum en virkja að auki sem flesta aðila í nýja söfnun, þeirra á meðal
Islendinga í Vesturheimi. Sem fyrr var Tryggvi Gunnarsson formaður fimm-
tán manna undirbúningsnefndar, Bjarni Jónsson frá Vogi var ritari en gjald-
kerar alþingismennirnir Björn Kristjánsson og Hannes Hafstein.20 Einar
Jónsson myndhöggvari var ráðinn til verksins og fór svo að gerðar voru
tvær bronsafsteypur af gifsmynd hans af Jóni; önnur þeirra var síðar send til
Kanada og sett upp í Winnipeg en menn deildu um hvar í Reykjavík koma
ætti hinni fyrir. A tímabili var minnisvarðanefndin með Austurvöll í huga en
sú tillaga var harðlega gagnrýnd í grein í Ingólfi 4. maí 1911:
Því að óneitanlega vottar það ótrúlega andlega fátækt, að geta ekki dottið annar staður í
hug, en sá sem einmitt er búið að setja mynd á. Á Austurvelli fer ekki vel um nema eina
mynd. Og flestum íslendingum þykir líklega hart að láta Jón Sigurðsson forseta standa
eins og einhvern knaba [svo] Alberts Thorvaldsens í einu horninu á blettinum hans. Nei,
Jón Sigurðsson getur ekki staðið á Austurvelli svo að það sé okkur vansalaust, nema
Thorvaldsens myndin sé flutt burtu þaðan og Jón settur í hennar stað, - en það er ekki
meiningin.
Breytist þetta áform - og flestir munu vona að svo fari - hefir nefndin hu[g]sað sér
Lœkjartorg, og er það miklu betra. Sannast að segja er það ágætis staður. Þar mætast
allar helstu götur Reykjavíkur; þar eiga allir útlendir og innlendir ferðamenn leið um,
og þar er stjórnarráðshúsið. Jón gæti staðið þar til áminningar öllum okkar ráðherrum
um það, með hverjum huga þeir eiga að ganga að starfi sínu.21