Unga Ísland - 01.06.1948, Blaðsíða 84
82
annan, langt fyrir neðan grillti í bæi, borgir og landslag
með skógum, vegum og ám. Vinstra megin Ítalía, hægra
megin Austurríki. Með vissu millibili á leið okkar rákumst
við á hvítmálaða, lága stöpla — það voru landamerkin á
milli ríkjanna tveggja. Við gerðum það að gamni okkar
að „standa með annan fótinn í Ítalíu og hinn í Austurríki“,
og okkur fannst það sjálfum mjög fyndið!
„Hafið þið vegabréfin ykkar meðferðis, eins og ég sagði
ykkur, áður en við lögðum af stað?“ spurði Fritz okkur
allt í einu og benti á tvo menn, sem komu hlaupandi á móti
okkur. Þeir voru í dökkgrænum einkennisbúningi með byssu-
stingi um öxl — ítalskir landamæraverðir. Þegar þeir komu
nær, hættu þeir hlaupunum og komu labbandi til okkar
brosandi út að eyrum. Þeir kinkuðu kolli, er þeir voru
komnir að okkur og sögðu nokkur orð á lélegri þýzku. Þeir
minntust ekki á vegabréf, töluðu aðeins um veðrið og um-
hverfið, fóru að gera að gamni sínu og létu að lokum með
glöðu geði Fritz taka mynd af sér með okkur. Síðan kvöddu
þeir okkur aftur hlæjandi og hurfu eitthvað út í buskann,
en við héldum áfram leið okkar. Oðru hverju urðum við
að nema staðar til að virða fyrir okkur útsýnið, sem heill-
aði okkur alltaf að nýju. Fritz sagði okkur nöfnin á helztu
tindunum — hann sýndi okkur Dolomiten-tindana, sem
eru frægir fyrir fegurð og sérkennileik. Stórkostleg fegurð
og djúp kyrrð var allt í kringum okkur.
Um 3-leytið síðdegis komum við að Hinterbergerskálanum,
lokamarkinu, áður en við leggðum af stað niður aftur. Skál-
inn var þá tiltölulega nýbyggður og hinn snotrasti í alla
staði. Við settumst inn í vistlegan gestasalinn og fengum
okkur nú heitan mat: kartöflusúpu og pulsur, sem þar voru
á boðstólum. Við vorum orðin vel þreytt af göngunni og
nutum bæði matar og hvíldar í fyllsta mæli. Hugur okkar
var enn gagntekinn af náttúrufegurðinni, sem við höfðum
séð á göngunni. Við sátum góða stund að máltíðinni lokinni