Sagnir - 01.06.2001, Side 27
tilfinningalaust skrímsli. Keppst er við að finna honum allt til
foráttu, stórt og smátt, og slá fram alhæfingum sem bera heift-
blindni rannsakandans sterkara vitni en gagnrýninni sýn. Af
þessum sökum hafa margir glímt við þá ráðgátu hvers vegna
Hitler lagði á sig allt það erfiði og umstang sem hann stóð í
vegna Wagners og Bayreuthhátíðarinnar á dögum Þriðja ríkis-
ins. Höfuðspurning ráðgátunnar er hvers vegna Hitler sat undir
þessu öllu saman þar sem sýnt þykir, að hann hafði lítið sem
ekkert vit á tónlist, hvað þá tónlist Wagners. Þessu til svara er
að ráðgátan er tilbúningur þeirra sem geta ekki horft á Hitler
sem mennska tilfinningaveru. Hitler hreifst af Wagner á sama
hátt og hver annar Wagneristi. Hvenær hefur maður „vit á“ tón-
list? Hitler sá óperur Wagners á sviði oftar en talið varð. Hann
stærði sig af því að hafa séð Götterdámmerung og Meistara-
söngvarana oftar en hundrað sinnum. Auk þess gat hann klórað
sig áfram á píanó. Hann hafði ekki víðan tónlistarsmekk en
lagði mikla stund á það sem hann hafði áhuga á.41 Bæði Wagner-
fjölskyldan og listamenn sem komu fram í Bayreuth þegar
Hitler dvaldi þar höfðu þá og síðar orð á þekkingu hans á
verkum Wagners.42 Samstarfsmenn Hitlers taka í sama streng.
Albert Speer talar um að Hitler hafi verið allur annar maður
eftir að hafa hlustað á Wagner. Eftir heimsóknir hans til
Bayreuth hafi hann verið óvenju léttlyndur og afslappaður.43
Winifred heillaðist samstundis af Hitler og traust vinátta
þeirra stóð allt til loka. Hitler lék á alls oddi í Bayreuth, las
börnum Winifredar og Siegfrieds, Friedelindi, Verenu, Wolfgang
og Wieland, sögur á kvöldin og naut samvistar við vini sína.
„Onkel Wolf“ í heimsókn í Wahnfried, með Winifred og Wieland til hvorrar
handar. Aftast má greina Woífgang. Iðnjöfrar nokkrir í Þýskalandi reyndu að
koma sér í mjúkinn hjá Hitíer á fimmtugsafmæli hans 1939 og gáfu honum hand*
rit sem þeir höfðu keypt af erfingjum Lúðvíks Bxjaralandskonungs. Um var að
ræða frumhandrit Wagners af fyrstu þremur óperum sínum, ásamt handskrifuðum
afritum hans sjálfs af Rtnargullinu, Valkyrjunni og fleiru. Wieland grátbað Hitler
í Berlín t janúar 1945 að færa handritin frá Berlín til Bayreuth, en Hitler taldi þau
örugg í sínum fórum, hafnaði beiðninni og neitaði að greina Wieland frá því hvar
þau væru niðurkomin. Þau hafa aldrei fundist og eru vísast glötuð.
Hann var aufúsugestur í Wahnfried og var tekið opnum örmum
þegar hann birtist skyndilega í dyragættinni. Hitler varði
miklum tíma með börnunum fjórum, sem hændust að honum og
kölluðu „Onkel Wolf“. Á sýningum í Festspielhaus sat Hitler
við hlið Winifredar í svalarstæði Wagnerfjölskyldunnar,
haldandi í hönd hennar í átakamestu senunum. í henni átti
hann einkavin.44
Bayreuth í Þriöja ríkinu
Á fjórða áratugnum stóðu Bayreuthhátíðin og fjölskyldan í
Wahnfried frammi fyrir miklum breytingum. Cosima og Sieg-
fried féllu frá með skömmu millibili árið 1930. Skyndilega stóð
33 ára gömul ensk kona og fjögurra barna húsmóðir með
rekstur og listræna stjórn hátíðarinnar í höndunum.
Aðstaða Winifredar var ákaflega erfið, bæði frá
listrænu og pólitísku sjónarmiði. Siegfried breytti
sáralitlu í listrænum efnum og hátíðin sat þegar á
hans dögum undir ámæli fyrir íhald umfram list-
rænan metnað. Það kom í hlut Winifredar að tryggja
að Bayreuth héldi virðingu sinni og listfengi. Erfið-
leikarnir fólust ekki síst í ákvörðunum um hverju
mætti breyta og hverju ekki.
Valdataka Hitlers og uppgangur nasismans vöktu
upp áleitnar spurningar um hátíðina. Með valdatök-
unni óx Bayreuthklíkunni fiskur um hrygg og þóttist
hún hafa himinn höndum tekið þegar sjálfur Hitler
var bæði leiðtogi ríkisins og innanbúðarmaður á
hátíðinni. Á sama tíma heyrðust raddir um að Wini-
fred bæri að víkja fyrir þýskum Festspielleiter, rétt
eins og talað var um Cosimu áður, en ekki tóku allir
undir það. Cosima hafði það sér til ágætis að vera
eiginkona tónskáldsins og þekkja frá fyrstu hendi
hvernig hlutirnir ættu að vera. Sú staðreynd varð
henni mikil vörn og sefaði margan klíkumeðliminn.
Winifred þekkti aldrei Richard og stóð því varnar-
laus þegar fullyrt var að aðrir kynnu að hafa meira
vit á málefnum hátíðarinnar en hún. Ástæða þess að
Bayreuthklíkan beitti sér hins vegar ekki harðar í
andstöðunni gegn Winifred var sú að náin vinátta
hennar og Hitlers var talin stórt tromp. Meirihluti
klíkunnar hefur talið það of sterkt á hendi til þess að
spila því ekki út.
Listræn vandræði Winifredar minnkuðu lítið við
valdatöku nasista. Toscanini, sem stjórnað hafi bæði
1930 og 1931 við mikinn orðstír, lofaði að snúa aftur
1933. Hann hafði aftur heitið því að stjórna aldrei á
Ítalíu meðan fasistar væru við völd þar né koma fram
í Rússlandi. Við valdatöku nasista hvarf Toscanini
frá öllum áformum um tónleika í Þýskalandi og steig
aldrei fæti á þýska jörð meðan Hitler var kanslari.45
Ýmsir færustu söngvarar Bayreuth sem voru gyðing-
ar eða af gyðingaættum pökkuðu í töskurnar von
bráðar. Vandræðin jukust. Bayreuth-klíkunni varð
hins vegar ekki að ósk sinni um að Hitler og nasistar
tækju sjálfir til hendinni og „hreinsuðu“ Bayreuth.
Þvert á móti olli afskiptaleysi Hitlers í listrænum
efnum þeim vonbrigðum.46
Réttara væri að tala um vernd Hitlers en afskipta-
leysi þegar að listrænum efnum hátíðarinnar kom. í
Þriðja ríkinu giltu boð og bönn í menningarmálum
ríkisins. Yfirvöld létu ekki liggja í láginni hvaða list
væri Þjóðverjum samboðin og hver teldist úrkynjuð
og skaðleg. Víða var listaverkum fargað á almanna-
færi og úrkynjuð list höfð að spotti. Tónlistarlífið var
ekki undanþegið. Tiltekin tónlist hvarf af efnisskrám.
Óperuhús og hljómsveitir heyrðu beint undir ríkis-
valdið og urðu að hlýða boðum þess. Hljómsveitar-
stjórum, söngvurum og einleikurum var umsvifalaust
sagt upp störfum að kröfu yfirvalda ef þeir þóttu á
einhvern hátt ekki falla að menningarhugmyndum
nasista. Tónlistarstofnanir misstu með þessu veiga-
mikið sjálfstæði í rekstri sínum.47
Öfugt við önnur óperuhús í landinu hélt Bayreuth
listrænu sjálfstæði sínu lengst af. Hitler sá sjálfur um
að hátíðin starfaði ósnortin og undir afdráttarlausri
stjórn Winifredar. Það er ekki þar með sagt að Hitler
hafi horft á gyðinga stíga á stokk í þessu heilagasta
tónlistarhúsi landsins athugasemdarlaust. Hann bað
Winifred, bæði að eigin hvötum og þrýstingi annarra
nasískra áhrifamanna í menningarmálum, að útiloka
25