Helgafell - 01.10.1946, Blaðsíða 154
336
HELGAFELL
aði hennar með þeim hætti, en þó ber það
við, að nokkurra ára námsdvöl erlendis
fylli unga menn ótrúlegum gorgeir, ásamt
tilheyrandi fyrirlitningu á þeirri þjóð, sem
hefur alið þá og kostað menntun þeirra.
Einkum hefur þessu þótt við bregða um ein-
staka sænskmenntaða lærdómsmenn á vorum
dögum. Þannig munu útvarpshlustendur
minnast þess, hversu einn slíkur plöntufræð-
ingur lét í fyrra svipuna dynja á þcssari ves-
ölu þjóð fyrir þröngsýni, húraskap og nánas-
arhátt og fór um það orðum, sem öll lýstu
talsvert minni háttvísi og hógværð, en búast
mætti við af þcim manni, er einkum leggur
lag sitt við blóm og jurtir. Annar ágætur
mcnntamaður — og ég vil taka það fram,
að lærdómur þess manns og vísindaheiður er
hafinn yfir allan vafa — lét sér einnig sæma
fyrir skemmstu að ganga til liðs við þá útlendu
menn, sem líta þjóð vora smæstum augum
og velja henni háðulegust orð, enda þótti
ræðumanni fara vel á því, að Islcndingar yrðu
hér eftir taldir, allir sem einn, til „halanegra
og eskimóa". Ekki veit ég hvað honum hefur
geng.ið til þess að ófrægja hina síðartöldu með
þessum samanburði, úr því að honum finnst
Islendingar vera svona hlálegir, því mér hefur
verið sagt, að eskimóar væru fremur viðfeldinn
og meinlaus þjóðflokkur, og ekki kann ég
heldur nein skil á þeirri manntegund, er hann
nefnir halanegra, þó ég efist ekki um að ann-
ar eins fræðimaður hafi góðar heimildir fyrir
tilveru þeirra. En jafnvel þó að hann kunni að
hafa komizt á snoðir um einhver lítilfjör-
leg einkenni sameiginleg með sér og þessum
dularfulla kynstofni, er ekki þar með sagt,
að íslendingum upp til hópa svipi til hans.
Því munu þeir, unz fyllri upplýsingar liggja-
fyrir, afþakka með öllu þessar nafngiftir.
*
# *
Að sjálfsögðu fer vel á því, að þeir menn,
er sjá öðrum betur og dómbærastir eru, segi
þjóð sinni sanngjarnlega til syndanna, ekki
sízt þegar sú viðleitni er sprottin af ræktar-
semi og umbótahug. En þó að þjóð vorri sé
um margt áfátt og hún sé í æði mörgu tilliti
skemmra á veg komin en æskilegt væri, þá á
hún sér að minnsta kosti þá afsökun að hafa
þurft að ganga aðrar þjóðir uppi, ef svo má
að orði kveða, á tvcim til þrcm mannsöldrum.
Afköst hennar á þessu tímabili sæta raunar
þegar á allt er litið, hinni mestu furðu, og enn
ntun hún halda áfram baráttunni fynr bætt-
um lífsskilyrðum og aukinni menningu. I þeirri
sókn heitir hún á alla góða menn sér til full-
tingis og ekki hvað sízt hina ötula og ágætu
vísindamenn, er ég áður vitnaði til. Hún hefur
frá upphafi vega haft lærdóm og kunnáttu í
hávegum, og hún veit, að æ meiri þekking er
henni lífsnauðsyn. En hún má ekki heldur
vanmcta þá menningu hjartans, hina innri
tign, sem m. a. er fólgin í hógværð, umburð-
arlyndi og góðfýsL Án þeirra eiginleika er
jafnvel hin lærðasta þjóð áþekkust nýja turn-
inum á Hólum, sem verður bara upplýstur
að utanverðu.
T. G.
★
FRÁ RITSTJÓRNINNI
Þetta hefti, sem er lokahefti 4. árgangs, ber þess menjar að hafa verið lengi á leiðinni,
og eru höfundar þess og lesendur beðnir velvirðingar á því. — Ritgerð próf. Halldórs Her-
mannssonar um fyrstu íslenz\u tímaritin er þýdd úr Islandica, XI. bindi, og lýkur henni í næsta
hefti. Þar birtist einnig grein um Asgrím Jónsson málara með myndum af nokkrum málverk-
um hans, en hún kemst því miður ekki að í þetta sinn.
Ritstjórar: Magnús Asgeirsson og Tómas Gu&mundsson
Afgreiðsla í Garðastræti 15—17, Reykjavík. — Sími 2864. — Pósthólf 263. — Víkingsprent h f.