Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2005, Side 52
TORFI H. TULINIUS
goðorðsmanni á Snæfellsnesi, en af Islendingasögu má ráða að þó nokkur
vinátta hafi verið milli þeirra.28 Má því ætla að um deilur þessar hafi ver-
ið mikið rætt í samtímanum og að þær hafi verið ofarlega í huga manna
sem voru í návígi við Þórð bæði fyrir og eftir fráfall hans sjálfs árið 1237.
Sögur og hugjnyndafræöi
Það er freistandi að skoða þá mynd af Snorra goða sem kemur fram í Eyr-
byggja sögu í ljósi þessara deilna og velta því fyrir sér hvort þeirra sjái stað
með einhverjum hættd í sögunni. Þótt ekki sé nm beina skírskotun að
ræða er ekki útilokað að frásögn höfundar af því þegar Snorri sagði fyrir
um hvernig kveða skyldi niður undrin að Fróðá fái merkingu með hlið-
sjón af átökunum um dómsvaldið. Með því að draga upp mynd úr fortíð-
inni af samvinnu prests og manna af goðaættum er verið að kveða á um
verkaskiptingu milli þessara tveggja máttarstólpa samfélagsins, klerka og
höfðingja. Hún er skýr: sonur Snorra og systursonur sækja málið gegn
afturgöngunum, en presturinn sér um að „veita þar tíðir, vígja vatn og
skrifta mönnum“ (bls. 151). Það liggur við að í þessum orðum megi
heyra enduróm af því sem Arnór Tumason, bróðir Kolbeins, býður á
sáttafundi milli höfðingja og Guðmundar biskups sem haldinn var árið
1211, en þá hefur Guðmundur verið gerður brottrækur af biskupssetr-
inu: „Bauð Arnór marga kosti sæmilega en þó vildi hann eigi að biskup
færi á staðinn svo að hann réði meira en klerkum og tíðum.“29 Höfðing-
inn Arnór vill að Guðmundur sjái um helgar athafnir og veiti klerkum
forystu en ekki að hann hafi forræði yfir eignum biskupsstólsins og
rekstri þeirra. I Eyrbyggju segir annar höfðingi, Snorri goði, sem reynd-
ar er forfaðir Arnórs,30 fyrir um hvernig prestur og ungir menn af goða-
ætt skulu skipta með sér verkum við að kveða niður Fróðárundur.
I frægri grein hélt mannfræðingurinn og goðsagnafræðingurinn
Claude Lévi-Strauss því fram að goðsögur væru form hugsunar, leið fyr-
ir samfélagið sem elur þær af sér til að sætta ósættanlegar andstæður í
heimsmynd þeirra.31 Ljóst er að átök um verkaskiptinguna milli klerka
28 Sturlunga saga, bls. 304. Um vinskap þeirra má t.d. lesa á bls. 383.
29 Sturlunga saga, bls. 225.
30 Sturlunga saga, bls. 48.
31 Claude Lévi-Strauss, „Formgerðargreining goðsagna“, Spor í bókmermtafrœði 20.
aldar. Frá Shlovskíj til Foucault, ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og
Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun, 1991, bls. 53-80.
50