Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2007, Page 7
Guðni Elísson
Nú er úti veður vont:
Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð
„Nýi tískuliturinn er grænn“ segir í frétt sem birtist í Morgunblaðinu
8. apríl 2007, en þar er fjallað um svokallaða „tísku með samvisku“, tísku
sem fylgir þeirri vaxandi kröfu í samfélaginu að einstaklingar geri fata-
skápinn sinn „grænan og umhverfisvænan“ og séu um leið „siðferðilega
og samfélagslega“ ábyrgir „í fatavali og meðferð fatnaðar“, en tónlistar-
maðurinn Bono er meðal þeirra sem hvatt hefur almenning til að sýna
siðferðilega ábyrgð þegar kemur að fatavali.1 Fréttin er forvitnileg vegna
þess að hún ber þess vott að kröfur um umhverfisvænan lífsstíl fari
vaxandi á Vesturlöndum og séu hugsanlega að verða mikilvægur þáttur í
neyslumynstri nútímasamfélaga.
Island er hér engin undantekning, en svo virðist sem umræða síðustu
ára um hnattræna hlýnun (e. global warming) sé loks að ná eyrum íslensks
almennings. Þetta sést ekki síst á því að ýmis íslensk fyrirtæki sjá sér nú
hag í því að byggja upp jákvæða ímynd með því að leggja áherslu á um-
hverfismál. Kaupþing reið á vaðið og í auglýsingu frá 17. apríl 2007 lýsti
bankinn því yfir að ákveðið hefði verið að „kolefnisjafha Kaupþing“ og
jafnframt að hann væri „fyrsta íslenska fyrirtækið“ sem gerði það.2 Onn-
ur fyrirtæki fylgdu fast á eftir, s.s. Orkuveita Reykjavíkur sem í auglýs-
ingum sínum hrósar sér af stefnu sinni í umhverfismálum og segist vilja
„gera enn betur“,3 og bílaumboðið Hekla sem lýsir því yfir að bílarnir
frá fyrirtækinu séu „allir grænir“ og að Volkswagen á Islandi hafi tekið
1 „Nýi tískuliturinn er grænn“, Morgunblaðið 8. apríl 2007, bls. 18. Sjá einnig grein
Astu Andrésdóttur um sama efni: „Tíska með samvisku", Nýtt Líf, 8. tbl. 2007, bls.
64—67.
2 Morgunblaðið 17. apríl 2007, bls. 5.
3 Sjá t.d. Morgunblaðið 17. maí 2007, bls. 11, og 19. maí 2007, bls. 17.
5